Viðskipti innlent

Hjó skarð í af­komuna

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hrefna Sætran.
Hrefna Sætran. Fréttablaðið/Stefán
Veitingastaðirnir Grillmarkaðurinn og Fiskmarkaðurinn, sem eru meðal annars í eigu matreiðslumeistarans Hrefnu Sætran, töpuðu samtals 109 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningum félaganna. Staðirnir högnuðust um 181 milljón á árinu 2017 og 235 milljónir árið 2016. Gjaldþrot Skelfiskmarkaðarins í vor hafði veruleg áhrif á afkomuna.

Tekjur Grillmarkaðarins námu 836 milljónum króna og drógust saman um 4,5 prósent á milli ára en tekjur Fiskmarkaðarins námu 449 milljónum og drógust saman um 8 prósent. Þannig var áframhaldandi samdráttur hjá Fiskmarkaðinum en milli áranna 2016 og 2017 drógust tekjur hans saman um 10,6 prósent.

Báðir staðirnir skiluðu rekstrarhagnaði. Hann nam 79 milljónum króna hjá Grillmarkaðinum og 14,8 milljónum hjá Fiskmarkaðinum. Tap vegna Skelfiskmarkaðarins var hins vegar bókfært á samtals 152 milljónir króna í ársreikningum veitingastaðanna tveggja sem fóru með samtals 75 prósenta hlut í árslok 2017.

Þegar 48 einstaklingar fengu matareitrun á Skelfiskmarkaðinum, sem var opnaður í ágúst 2018 eftir þriggja ára undirbúning, fór að halla undan fæti og var staðnum lokað í vor. Hrefna Sætran sagði í kjölfarið að salan hefði minnkað um helming eftir atvikið.

Hrefna Sætran á helmingshlut í Fiskmarkaðinum á móti Ágústi Reynissyni. Fiskmarkaðurinn á síðan 60 prósenta hlut í Grillmarkaðinum á móti Guðlaugi Papkum Frímannssyni sem á 30 prósent. Eigið fé veitingastaðanna nemur samtals 491 milljón króna.


Tengdar fréttir

Hrefna lokar Skelfiskmarkaðnum

Hrefna Rósa Sætran og samstarfsmenn hennar hafa tekið ákvörðun um að loka veitingastaðnum Skelfiskmarkaðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×