Íslenski boltinn

Tindastóll getur komist upp í efstu deild í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murielle Tiernan, leikmaður Tindastóls, er markahæst í Inkasso-deild kvenna með 22 mörk.
Murielle Tiernan, leikmaður Tindastóls, er markahæst í Inkasso-deild kvenna með 22 mörk. vísir/getty
Tindastóll getur tryggt sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn þegar lokaumferð Inkasso-deildar kvenna fer fram í kvöld. Allir fimm leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Grindavík og ÍR eru fallin og Þróttur búinn að vinna deildina. Annað sætið og þar með sæti í Pepsi Max-deildinni er hins vegar enn í boði.

FH er í 2. sæti með 36 stig, tveimur stigum á undan Tindastóli og þremur stigum á undan Haukum.

Fyrir nokkrum vikum benti ekkert til annars en FH-ingar færu örugglega upp í Pepsi Max-deildinni. En FH hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum og því er liðið aðeins með tveggja stiga forystu í 2. sætinu.

Eftir 0-7 tap fyrir Þrótti 8. ágúst hefur Tindastóll unnið fimm leiki í röð. Liðið fær ÍA í heimsókn í kvöld. Skagakonur eru í 6. sæti deildarinnar.

Til að Tindastóll eignist lið í efstu deild í fótbolta í fyrsta sinn þarf liðið að vinna ÍA og treysta á að Afturelding, sem er í 5. sæti, leggi FH að velli. Jafntefli ætti að duga FH-ingum því þeir eru með miklu betri markatölu en Stólarnir.

Haukar eiga enn tölfræðilega möguleika á að ná 2. sætinu. Til þess að það gerist þarf FH að tapa, Tindastóll tapa eða gera jafntefli og Haukar að vinna botnlið ÍR mjög stórt. Haukar eru með 13 mörk í plús en FH 23 mörk. Eftir rólega byrjun á tímabilinu hafa Haukar unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum.

Þróttur fær bikarinn fyrir sigur í Inkasso-deildinni afhentan eftir leikinn gegn Grindavík. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þá mætast Augnablik og Fjölnir á Kópavogsvelli. Liðin eru jöfn að stigum í 7. og 8. sæti deildarinnar.

Leikirnir í lokaumferð Inkasso-deildar kvenna (hefjast allir klukkan 19:15):

Afturelding - FH

Tindastóll - ÍA

Haukar - ÍR

Þróttur - Grindavík

Augnablik - Fjölnir

Staðan fyrir lokaumferðina í Inkasso-deild kvenna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×