Viðskipti innlent

Fjórtán starfsmönnum sagt upp hjá ÍSAM

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM. Fyrirtækið á Mylluna, Ora, Kexsmiðjuna og Frón.
Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM. Fyrirtækið á Mylluna, Ora, Kexsmiðjuna og Frón. Mynd/Samsett
Fjórtán starfsmönnum var sagt upp hjá fyrirtækinu ÍSAM um síðustu mánaðamót. Þetta staðfestir Hermann Stefánsson forstjóri ÍSAM í svari við fyrirspurn Vísis. Starfsmennirnir unnu í mörgum deildum fyrirtækisins, svo sem við framleiðslu, sölu, dreifingu og á skrifstofu.

Hermann segir uppsagnirnar lið í því að snúa taprekstri undanfarinna ára við. Unnið sé að breyttu skipulagi fyrirtækisins með það að leiðarljósi að „draga úr kostnaði, skerpa á fókus í rekstrinum og gera ÍSAM betur í stakk búið að starfa á krefjandi samkeppnismarkaði.“

Sjá einnig: Segir ógeðfellt að boða verðhækkun í miðri atkvæðagreiðslu

Ein hagræðingarleiðin felist til að mynda í því að flytja stóran hluta starfseminnar á einn stað á Korputorgi en höfuðstöðvar ÍSAM eru að Tunguhálsi 11. Alls starfa um 400 manns hjá ÍSAM, sem á Mylluna, Ora, Kexsmiðjuna og Frón.

Í apríl síðastliðnum sætti ÍSAM mikilli gagnrýni af hálfu forkólfa innan verkalýðshreyfingarinnar eftir að fyrirtækið boðaði verðhækkanir, yrðu kjarasamningar samþykktir. Í kjölfarið var hvatt til sniðgöngu á vörum fyrirtækisins.

Hermann Stefánsson forstjóri tjáði Vísi á sínum tíma að tölvupósturinn hefði vissulega verið óheppilega tímasettur. Hann sagði þó að fyrirtækinu væri nauðugur kostur að hækka verð á vörum sínum í ljósi samkeppnisstöðu íslensks framleiðsluiðnaðar.

Í júní síðastliðnum var svo greint frá því að hluthafar hefðu lagt ÍSAM til 800 milljónir króna í fyrra samhliða 662 milljóna króna tapi fyrir tekjuskatt. Tap fyrirtækisins jókst um 310 milljónir króna á milli ára.


Tengdar fréttir

Segir lágvöruverslanir spyrna á móti verðhækkunum

Verslunin Krónan hefur fengið 70 tilkynningar um verðhækkanir á vörum frá því síðasta haust. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir ýmsar ástæður liggja þar að baki bæði gengisbreytingar og launahækkanir.

Lögðu ÍSAM til 800 milljónir

Hluthafar lögðu ÍSAM til 800 milljónir króna í fyrra samhliða 662 milljóna króna tapi fyrir tekjuskatt. Tapið jókst um 310 milljónir króna á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×