Viðskipti innlent

Féllu frá fimm milljóna evra kröfum

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Lykilstjórnendur Marorku keyptu félagið af þrotabúi í fyrra. Gunnar Stefánsson, Darri Gunnarsson framkvæmdastjóri og Haraldur Orri Björnsson.
Lykilstjórnendur Marorku keyptu félagið af þrotabúi í fyrra. Gunnar Stefánsson, Darri Gunnarsson framkvæmdastjóri og Haraldur Orri Björnsson.

Þrotabú Marorku International og dótturfélög féllu frá kröfum að fjárhæð 5,2 milljónir evra, jafnvirði tæplega 730 milljóna króna, gagnvart Marorku ehf. en það selur orkustjórnunarkerfi og hugbúnað í stór skip. Niðurfelling krafna var gerð samhliða kaupum lykilstjórnenda á félaginu. Þeir keyptu einnig Marorku Singapore PTE. Þetta kemur fram í ársreikningi Marorku ehf. fyrir árið 2018.



Kaupin má rekja til þess að í febrúar 2018 varð móðurfyrirtækið Marorka International úrskurðað gjaldþrota. Í kjölfar þess sömdu lykilstarfsmenn Marorku ehf. um kaup á fyrirtækinu. Á sama tíma féll Marorka ehf. frá kröfum gagnvart Markroku Singapore PTE að fjárhæð 394 þúsund evrur. Hlutafé Marorku ehf. var jafnframt aukið um 34,3 þúsund evrur eða tæplega fimm milljónir króna.



Starfsmönnum fækkaði um 25 eftir gjaldþrot móðurfélagsins og voru starfsmenn Marorku níu við árslok 2018. Eftir endurskipulagningu á fjárhag félagsins var eigið fé 1,1 milljón evra og eiginfjárhlutfallið 34 prósent við árslok 2018.



Tekjur fyrirtækisins drógust saman um þriðjung á milli ára og voru 2,2 milljónir evra árið 2018, jafnvirði 314 milljóna króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 111 þúsund evrur en árið áður var tapið um milljón evra. Fram kom í ársreikningi 2017 að rekstrarkostnaður á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018 hafi verið í hlutfalli við fyrri umsvif. Stjórnendur horfi því bjartir fram á veginn.



Fréttin hefur verið leiðrétt en eigið fé Marorku var rangt í fyrri útgáfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×