Erlent

Gríðarleg eyðilegging blasir við björgunarfólki

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Þegar Dorian skall á eyjunni Abaco var vindhraðinn slíkur að áður hafði ekki sést á mælum og fór Abaco, ásamt stærstu eyjunni Grand Bahama, sérstaklega illa út úr hamförunum.
Þegar Dorian skall á eyjunni Abaco var vindhraðinn slíkur að áður hafði ekki sést á mælum og fór Abaco, ásamt stærstu eyjunni Grand Bahama, sérstaklega illa út úr hamförunum. Vísir/AP
Gríðarleg eyðilegging blasir við björgunarfólki á Bahama-eyjaklasanum eftir að fellibylurinn Dorian lagði þar allt í rúst. Forsætisráðherrann Hubert Minnis segir að staðfest sé að sjö hafi látist en hann óttast að sú tala eigi eftir að hækka. Umfang eyðileggingarinnar liggur í raun ekki fyrir enn en Mannis sagði þetta vera eitt alvarlegasta neyðaratvik sem eyjaklasinn hefði gengið í gegnum.

Þegar Dorian skall á eyjunni Abaco var vindhraðinn slíkur að áður hafði ekki sést á mælum og fór Abaco, ásamt stærstu eyjunni Grand Bahama, sérstaklega illa út úr hamförunum.

Talskona hjálparsamtaka sem hefur verið í sambandi við fólk á Abaco segir ástandið hrikalegt og jafnast á við Ragnarök. Mjög hefur dregið af Dorian þar sem hann þokast í norður en hann ógnar þó enn austurströnd Bandaríkjanna. Og þótt dregið hafi úr vindstyrknum þá hefur stormsvæðið breitt úr sér.

Björgunarfólk hefur notast við ýmsar leiðir við störf sín og hefur einnig verið unnið að því að koma matvælum og nauðsynjum til strandaglópa. Vegir eru víða ófærir og hefur því mikið verið notast við þyrlur, sæþotur og jarðýtur.

„Eyðileggingin er algjör,“ sagði Lia Head-Rigby, forsvarsmaður hjálparsamtaka, við AP fréttaveituna eftir að hún flaug yfir Abaco. „Þetta er ekki spurning um að endurbyggja eitthvað, heldur þurfum við að byrja alveg upp á nýtt.“



Hún sagði hjálparstarfsmenn sína hafa sagt henni að mun fleiri hefðu látið lífið en búið væri að staðfesta þó hún hafði ekki nánari upplýsingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×