Innlent

Þurfti að lenda í Keflavík eftir að farþegi steig á plasthníf og féll

Atli Ísleifsson skrifar
Farþeginn kenndi eymsla í mjöðm.
Farþeginn kenndi eymsla í mjöðm. vísir/vilhelm
Lenda þurfti flugvél frá British Airways á Keflavíkurflugvelli um helgina vegna slyss sem farþegi varð fyrir um borð. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að farþeginn hafi verið að athafna sig á gangi vélarinnar þegar hann steig á plasthníf á gólfinu og féll aftur fyrir sig.

„Hann kenndi eymsla í mjöðm og var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Flugvélin sem var á leið frá Seattle til London hélt svo för sinni áfram til áfangastaðar,“ segir í tilkynningunni.

Meinað að fara í flug vegna ölvunar

Þar segir ennfremur frá tveimur erlendum karlmönnum sem hafi um helgina verið meinað að fara í flug til Vilnius í Litháen vegna mikillar ölvunar.

„Lögreglumenn á Suðurnesjum fóru á staðinn og ræddu við mennina. Þeim var tjáð að þeir yrðu að yfirgefa flugstöðina og láta renna af sér áður en þeir mættu aftur til leiks.

Skömmu síðar barst lögreglu önnur tilkynning þess efnis að sömu aðilar væru dettandi fyrir utan FLE. Enn var haft tal af þeim og þeim síðan komið í leigubifreið sem ferjaði þá til Reykjavíkur,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×