Innlent

Þrjú fíkniefni í blóðinu og eitt í þvaginu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hafði margvísleg afskipti af manninum í fyrrasumar.
Lögreglan á Suðurnesjum hafði margvísleg afskipti af manninum í fyrrasumar. Vísir/GVA
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært tvítugan mann fyrir ítrekuð brot á umferðar- og fíkefnalagabrot, sem hann á að hafa framið í fyrra. Manninum, sem fæddur er árið 1998, er gefið að sök að hafa þrívegis ekið bíl undir áhrifum margvíslegra vímuefna.

Í ákæru á hendur manninum er hann sagður hafa fyrst verið sviptur ökuréttindum í maí á síðasta ári fyrir að hafa ekið undir áhrifum tveggja vímuefna, amfetamíns og kannabis, á Njarðarbraut í Reykjanesbraut. Hann hafi, ástands síns vegna, ekki verið „fær um að stjórna bifreiðinni örugglega,“ eins og það er orðað í ákærunni.

Akstur mannsins var aftur stöðvaður um þremur vikum síðar, þegar hann ók um Reykjanesbæ. Þá eiga að hafa fundist í blóði mannsins leyfar af amfetamíni, metamfetamíni og kannabis, auk þess sem í þvagi hans á að hafa fundist MDMA. Aukinheldur er hann sagður hafa haft 0,21 gramm af marijúana í fórum sínum.

Rúmum tveimur vikum síðar komst hann aftur í kast við lögin, þá með 1,87 grömm af maríjúana í fórum sínum. Því á hann að hafa framvísað þegar lögregla hafði afskipti af honum sem farþega í bíl.

Maðurinn var svo tvívegis stöðvaður af lögreglu í júlímánuði vegna gruns um að hann æki bifreið sinni réttindalaus og undir áhrifum vímuefna. Í fyrra skiptið á að hafa fundist amfetamín, metamfetamín og kannabis í blóði hans og í því síðara eru sagðar hafa fundist leyfar af kannabis í blóði hans og amfetamín í þvagi.

Aukinheldur eiga lögreglumenn að hafa fundið 0,43 grömm af marijúana í buxnavasa hans þegar maðurinn var á göngu um Reykjanesbæ í september.

Málið gegn manninum verður dómtekið í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×