Viðskipti innlent

Magnús Geir frá Mannlífi í Efstaleiti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auk þeirra Magnúsar Geirs og Andra Yrkils er Hallgrímur Indriðason snúinn aftur úr leyfi við störf hjá Atlantshafsbandalaginu í Litháe.
Auk þeirra Magnúsar Geirs og Andra Yrkils er Hallgrímur Indriðason snúinn aftur úr leyfi við störf hjá Atlantshafsbandalaginu í Litháe. Vísir/Vilhelm
Ríkisútvarpið hefur bætt við sig reyndum fréttamanni á innlendu fréttadeildina. Magnús Geir Eyjólfsson hóf störf í Efstaleiti á mánudaginn.

Magnús Geir segist í samtali við Vísi skilja við Mannlíf í góðu. Menn skipti um starfsvettvang eins og gengur og gerist.

„Ég átti bara RÚV eftir svo það er fínt að loka hringnum,“ segir Magnús Geir í samtali við Vísi.

Hann var önnum kafinn á Þróttaravellinum í Laugardal þar sem hann gegnir stöðu vallarþular. Hans konur leiddu 2-0 gegn FH þegar innan við stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Magnús Geir var því í góðum gír.

Magnús Geir tók við fréttastjórastarfinu hjá Mannlífi fyrir tæpu ári. Magnús starfaði áður sem upplýsingafulltrúi NATO í Georgíu á vegum Íslensku friðargæslunnar. Þar áður starfaði hann á fjölmiðlum samfleytt í tíu ár. Fjögur ár sem ritstjóri Eyjan.is og þar áður sem blaða/fréttamaður á Pressunni, Stöð 2 og Blaðinu.

Auk Magnúsar Geirs er Andri Yrkill Valsson, sem hefur starfað sem blaðamaður í almennum fréttum og íþróttum á Morgunblaðinu, kominn til starfa á fréttadeildinni.

Roald Viðar Eyvindsson verður eftir sem áður útgáfurstjóri Mannlífs.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Magnús Geir hefði verið ritstjóri Mannlífs. Hann var fréttastjóri þess.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×