Viðskipti innlent

Grímur Atlason til Geðhjálpar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Grímur Atlason er nýr framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Grímur Atlason er nýr framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Stjórn Geðhjálpar hefur ráðið Grím Atlason í starf framkvæmdastjóra samtakanna. Hann tekur við starfinu af Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur sem hefur verið framkvæmdastjóri síðastliðin 6 ár.

Í tilkynningu frá Geðhjálp er ferill nýja framkvæmdastjórans rakinn. Þar segir meðal annars að Grímur sé menntaður þroskaþjálfi og að hann ætli sér að ljúka MBA gráðu frá Háskóla Íslands næsta vor.

Þá hefur hann komið víða við á starfsferli sínum. Grímur var þannig bæjarstjóri Bolungarvíkur, sveitarstjóri Dalabyggðar og framkvæmdastjóri Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar í 8 ár. Þar að auki hefur Grímur starfað á vettvangi heilbrigðis- og félagsþjónustu á Íslandi og í Danmörku. Síðastliðið ár hefur Grímur starfað sem verkefnisstjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Haft er eftir Grími í tilkynningu Geðhjálpar að hann sé spenntur fyrir nýja starfinu. „Málefni einstaklinga með geðrænan vanda snerta flesta þræði samfélagsins og það er margt óunnið. Ég hlakka til að starfa með öllu því góða fólki sem situr í stjórn samtakanna og á skrifstofu þeirra en ekki síst í þágu allra þeirra sem starfið þjónar,“ segir Grímur Atlason.

Geðhjálp er landssamtök þeirra sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Tilgangur félagsins er að vinna að geðheilbrigðismálum og bæta hag þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða, barna og fullorðinna, svo og aðstandenda þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×