Erlent

Thun­berg í lofts­lags­verk­falli hjá SÞ

Valgerður Árnadóttir skrifar
Bandarísk ungmenni slógust með í för.
Bandarísk ungmenni slógust með í för. Vísir/Getty
Loftslagsaðgerða­sinninn frá Svíþjóð, Greta Thunberg, fékk bandarísk ungmenni með sér í lið þegar hún tók þátt í loftslagsverkfalli við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna á árbökkum Manhattan í gær. Kröfðust aðgerðasinnar, ungir sem aldnir, aukinna aðgerða ráðamanna til að sporna við loftslagsvandanum.

Nokkur hundruð ungmenni fylktu liði ásamt Gretu að höfuðstöðvunum og báru mótmælaspjöld sem á stóð meðal annars: „Hjálp, það er kviknað í heimili mínu.“ „Ef þið látið ekki eins og fullorðið fólk, munum við gera það“ og „vísindi, ekki þögn“ (e. science not silence). Sumir voru klæddir bolum sem á stóð „In Greta we trust“ eða „við treystum Gretu“.

Thunberg mun 23. september næstkomandi tala á alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsmál þegar leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna verður haldinn í New York.

Hún vakti heimsathygli með því að sigla til New York frá Svíþjóð á sólarknúnum báti og tók ferðin um tvær vikur.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur tekið undir með Thunberg um að heimurinn standi frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum og hefur skorað á þjóðarleiðtoga að koma á ráðstefnuna í næstu viku með raunhæf áform um hvernig leysa megi úr vandanum.

Hefur Thunberg tekið sér árs frí úr skóla til þess að fara loftslagsherferð sína til Ameríku.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×