Viðskipti innlent

Þjónustuafgangur jókst þrátt fyrir fækkun ferðamanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Þróunina má rekja til þess að Íslendingar ferðast minna.
Þróunina má rekja til þess að Íslendingar ferðast minna. vísir/ernir
Þrátt fyrir verulegan samdrátt í komum erlendra ferðamanna á öðrum ársfjórðungi varð lítils háttar aukning í þjónustujöfnuði. Þessa þróun má meðal annars rekja til þess að ferðalög Íslendinga erlendis drógust einnig saman.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Þar kemur fram að þjónustuútflutningur á öðrum fjórðungi ársins nam 116,1 milljarði króna og dróst hann saman um rúma 3,6 milljarða króna, eða 2,1%, á milli ára. Þjónustuinnflutningur nam hins vegar tæpum 114 milljörðum króna og dróst hann saman um 4,3 milljarða króna, eða 3,6%, á milli ára.

Þjónustujöfnuður var því jákvæður um 52,1 milljarða króna sem er um 700 milljónum króna eða 1,4% meiri afgangur en á sama tíma í fyrra. Meiri afgangur nú skýrist af því að þjónustuinnflutningur dróst meira saman að krónutölu en þjónustuútflutningur. Að undanskildu síðasta ári er þetta minnsti afgangur af þjónustuviðskiptum á öðrum ársfjórðungi síðan árið 2014, en þá nam hann 32,3 milljörðum króna.

Erlendum ferðamönnum fækkaði um 19,2% á öðrum fjórðungi borið saman við sama fjórðung í fyrra. Þetta er fyrsti ársfjórðungurinn þar sem Wow air nýtur ekki við en félagið fór í þrot í lok mars.

Tekjur af farþegaflutningum drógust saman um 29% á öðrum fjórðungi sé miðað við fast gengi krónu og var það þriðji fjórðungurinn í röð sem samdráttur mælist í farþegaflutningum á þann mælikvarða.

Langumsvifamesti innflutningur til landsins í formi þjónustu eru ferðalög Íslendinga erlendis. Þessi liður var 43% af heildarinnflutningi þjónustu á síðasta ári og hafði farið hækkandi árin þar á undan, en hlutfallið var t.d. 31% árið 2014. Ferðalög Íslendinga hafa aukist verulega á síðustu árum samfara auknum uppgangi hér á landi, lægra flugmiðaverði og styrkingu krónunnar sem hefur aukið kaupmátt Íslendinga erlendis.

Ákveðin breyting varð á þessu á fyrsta fjórðungi þegar brottförum Íslendinga fækkaði um 8,5% miðað við sama tímabil í árið áður. Það var í fyrsta skiptið síðan á fyrsta ársfjórðungi 2014 sem brottfarir dragast saman. Fækkunin nú á öðrum ársfjórðungi nam 2,2%. Þessi fækkun brottfara hefur leitt til þess að vöxtur í innflutningi ferðalaga hefur minnkað í samanburði við vöxt síðustu missera. Vöxturinn í innflutningi ferðalaga nam 8,1% en sé vöxturinn settur á fast gengi krónu var hann neikvæður um 4,4%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×