Viðskipti innlent

Hagnaður Sýnar á fyrri helmingi ársins 455 milljónir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Sýn hf.
Hagnaður Sýnar á fyrri helmingi ársins 2019 nam 455 milljónum króna sem er 413 milljóna króna hækkun frá sama tímabili í fyrra.

Fyrirtækið tapaði hins vegar 215 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2019 og segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu vegna afkomu fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins að afkoma síðasta ársfjórðungs séu vonbrigði.

„Fyrri spár stóðust engan veginn. Helstu ástæður eru verðlækkanir og frítilboð á fjarskiptamarkaði auk þess sem kostnaður á fjölmiðlamarkaði var umfram áætlanir,“ segir Heiðar.

Hann segir nýja framkvæmdastjórn hafa komið miklu í verk frá því hún tók við síðasta uppgjör í maí.

„Við höfum hagrætt mikið í rekstri, en kostnaðarlækkun mun nema yfir 50 milljónum á mánuði þegar hún kemur fram í vetur. Deildir hafa verið sameinaðar, millistjórnendum og almennu starfsfólki hefur fækkað auk þess sem endursamið hefur verið við birgja.“

Í tilkynningu Sýnar kemur fram að tekjur á öðrum ársfjórðungi hafi numið fimm milljörðum króna sem er þrjú prósent lækkun á milli tímabila. Þá lækkuðu tekjur á fyrri helmingi ársins um 189 milljónir króna á milli ára, eða um tvö prósent.

Rekstrarhagnaður Sýnar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) fyrstu sex mánuði ársins var tæpir 2,2 milljarðar króna, samanborið við tæpa 2,5 milljarða á fyrri helmingi ársins 2018.

Uppfærða EBITDA-horfur fyrir árið 2019 eru um 5,6 milljarðar króna. Nánari upplýsingar um afkomu Sýnar má nálgast hér.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Þrettán uppsagnir hjá Sýn

Heiðar Guðjónsson, forstjóri fyrirtækisins, segir uppsagnirnar vera hluta af skipulagsbreytingum vegna sameiningar Vodafone og 365.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×