Enski boltinn

Trommari Pink Floyd meðal þeirra sem björguðu Bolton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mason lemur húðirnar.
Mason lemur húðirnar. vísir/getty
Í laginu „Money“ með Pink Floyd segir: New car, caviar, four star daydream / Think I'll buy me a football team.

Lagið kom út á plötunni Dark Side of the Moon árið 1973. Eftir 46 ára umhugsunarfrest er Nick Mason, trommari Pink Floyd, nú búinn að kaupa fótboltalið. Mason er hluti af Football Ventures sem keypti Bolton Wanderers fyrir 10 milljónir punda í gær.



Mason og félagar skáru Bolton þar með úr snörunni sem félagið hékk í. Bolton fékk 14 daga frest til að finna nýja eigendur, annars yrði það rekið úr ensku deildakeppninni sem urðu örlög Bury.

Bolton hefur átt í miklum vandræðum innan vallar sem utan síðan liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni 2012.

Bolton féll úr ensku B-deildinni síðasta vor og fór í greiðslustöðvun. Bolton byrjaði með tólf stig í mínus í C-deildinni og hefur aðeins fengið eitt stig það sem af er tímabili.

Phil Parkinson hætti sem knattspyrnustjóri Bolton í síðustu viku og leikmannahópurinn er afar þunnskipaður. Bolton hefur teflt fram mjög ungu liði á þessu tímabili og leik liðsins gegn Doncaster Rovers um helgina var frestað til að forða ungu strákunum frá enn einum skellinum.

Bolton er með sterka tengingu við Ísland en nokkrir íslenskir fótboltamenn hafa leikið með liðinu í gegnum tíðina. Meðal þeirra er Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sem sagðist í viðtali við BBC í gær vera hryggur yfir gangi mála hjá sínu gamla félagi.


Tengdar fréttir

Bolton komið til bjargar

Knattspyrnufélaginu Bolton á Englandi hefur verið bjargað frá gjaldþroti en liðið hefur verið selt til Football Ventures.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×