Enski boltinn

„Gríðarlega erfitt að fylgjast með vandræðunum sem Bolton hefur lent í“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðni er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Bolton.
Guðni er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Bolton. vísir/getty
Enska fótboltafélagið Bolton Wanderers rær nú lífróður. Ef Bolton finnur ekki nýjan eiganda innan tveggja vikna bíða félagsins sömu örlög og Bury sem var rekið úr ensku deildakeppninni í gær.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, lék með Bolton á árunum 1995-2003 og var fyrirliði liðsins um tíma. Hann er uggandi yfir stöðunni hjá Bolton.

„Þetta yrði hrikalega mikið áfall. Þetta er ekki félag, þetta er stofnun og ég held að allir í Bolton séu stoltir af sögu félagsins,“ sagði Guðni í samtali við BBC Radio 5 Live.

„Það hefur verið gríðarlega erfitt að fylgjast með vandræðunum sem félagið hefur lent í undanfarin ár.“

Guðni vonast til nýr eigandi finnist og Bolton komist aftur á réttan kjöl.

„Ég hefði aldrei trúað því að staðan yrði svona slæm. En vonandi leysist úr þessu og nýir eigendur geta byggt félagið aftur upp.“

Bolton hefur tapað fjórum af fimm leikjum sínum í ensku C-deildinni á tímabilinu. Bolton er án knattspyrnustjóra og leikmannahópurinn er mjög þunnskipaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×