Erlent

Sex lögreglumenn skotnir í miklum skotbardaga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AP/Matt Rourke
Minnst sex lögreglumenn voru fluttir á sjúkrahús í Philadelphiu-borg í Bandaríkjunum í kvöld eftir að mikill skotbardagi braust út í íbúðarhverfi í borginni. Lögregla er með gríðarlegan viðbúnað vegna málsins.

Samkvæmt fréttastofu NBC í borginni hófst skotbardaginn eftir að fíkniefnalögreglumenn bönkuðu upp á heimili í Nicetown-hverfinu síðdegis í dag að staðartíma. Höfðu þeir meðferðis leitarheimild.

Svo virðist sem að húsráðandi hafi brugðist illa við komu lögreglumannanna og segir í frétt NBC að eftir að lögreglumennirnir voru komnir á efri hæð íbúðarinnar hafi húsráðandi hafi skothríð með AK-47 hríðskotabyssu.

Lögreglumennirnir skutu til baka og svo virðist sem við þetta hafi mikill skotbardagi hafist. Þegar þetta er skrifað hefur lögregla ekki náð að handtaka manninn sem hóf skothríðina og hefur hann læst sig inn í húsinu.

„Þetta var eins og stríð, eins og það sem maður sér í stríði,“ sagði ónafngreint vitni í samtali við NBC. „Byssurnar, skothríðin, hljóðin. Það var eins og það væri verið að sprengja stanslaust á sama tíma og fólk var að hefja kvöldmatartíma,“ sagði vitnið.

Lögreglumennirnir sex sem slösuðust í skotbardaganum eru ekki sagðir hafa slasast lífshættulega og hafa þeir verið fluttir á sjúkrahús.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu NBC í Philadelphiu á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×