Erlent

Foreldrar Noru krefjast svara

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nora Quoirin.
Nora Quoirin. Vísir/AP
Foreldrar Noru Quoirin, 15 ára stúlku með þroskaskerðingu sem fannst látin í regnskógi í Malasíu í vikunni, segja mörgum spurningum enn ósvarað um andlát hennar. Nora verður lögð til hinstu hvílu nálægt heimahögum sínum og fjölskyldu, sem búsett er að mestu í Frakklandi og á Írlandi.

Nora hvarf í fjölskyldufríi í bænum Seremban, nærri regnskógunum við borgarmörk Kuala Lumpur, þann 4. ágúst. Lík hennar fannst eftir níu daga leit í um tveggja kílómetra fjarlægð frá hótelinu þar sem fjölskyldan dvaldi.

Foreldrar Noru, sem eru frá Írlandi og Frakklandi en hafa verið búsett í London í tvo áratugi, stóðu frá upphafi í þeirri trú að dóttur þeirra hefði verið rænt. Báru þau því fyrir sig að Nora væri afar ósjálfbjarga sökum þroskaskerðingar sinnar og myndi því ekki ráfa burt af hótelinu af sjálfstáðum.

Lögregla rannsakaði málið þó ætíð sem mannshvarf. Samkvæmt niðurstöðum úr krufningu á líki Noru lést hún úr innvortis blæðingum af völdum svengdar eða streitu.

Frá leitinni að Noru í regnskóginum.Vísir/AP
Í yfirlýsingu sem foreldrar Noru sendu frá sér í dag segjast þeir óska eftir frekari svörum um atburði síðustu daga.

„Fyrstu niðurstöður úr krufningu hafa veitt okkur upplýsingar sem geta hjálpað okkur að skilja dánarorsök Noru. En fallega, saklausa stúlkan okkar lést við gríðarlega flóknar aðstæður og við vonum að fljótlega verði okkur gefin frekari svör við ótal spurningum okkar. Við eigum enn í erfiðleikum með að ná utan um atburði síðustu tíu daga,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá þakkar fjölskyldan embættismönnum í Malasíu fyrir sýndan hlýhug, svo og lögreglu og leitarmönnum fyrir hjálpina.

„Við hyggjumst flytja Noru heim þar sem hún verður loksins lögð til hvílu, nálægt ástríkum fjölskyldum sínum í Frakklandi og á Írlandi.“

Talið er að Nora hafi látist um tveimur til þremur dögum áður en lík hennar fannst. Ekki er grunur um að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað þrátt fyrir að lík hennar hafi ekki verið í neinum fötum þegar það fannst.


Tengdar fréttir

Fundu lík við leitina að Noru

Lögregla í Malasíu fann í dag lík við leit að hinni 15 ára Noru Quoirin, breskum táningi með þroskaskerðingu sem saknað hefur verið síðan í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×