Erlent

Nýr sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar staðfestur

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskylda Kelly Craft er stórtæk í kolaiðnaðinum.
Fjölskylda Kelly Craft er stórtæk í kolaiðnaðinum. AP/Alex Brandon
Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti skipan Kelly Craft, fyrrverandi sendiherra í Kanada, sem sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar í gær. Staðan hafði verið laus í sjö mánuði, allt frá því að Nikki Haley sagði af sér í lok síðasta árs.

Fimm mánuðir eru liðnir frá því að Donald Trump forseti tilnefndi Craft. Skipan hennar var staðfest nánast eftir flokkslínum. Aðeins fimm demókratar greiddu atkvæði með skipan Craft, aðrir töldu hana skorta reynslu til að gegna embættinu. Jonathan Cohen, varamaður Haley, hefur gegnt embættinu tímabundið frá því að Haley lét af því.

Craft er 57 ára gömul og var fjáraflari fyrir frambjóðendur repúblikana. Hún og eiginmaður hennar, kolafurstinn Joseph W. Craft III, gáfu meira en tvær milljónir dollara í kosningasjóði Trump. Þá er hún sögð náin Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, en þau eru bæði frá Kentucky.

Hún var gerð sendiherra í Kanada árið 2017 eftir að Trump tók við embætti. New York Times segir að hún hafi að mestu haldið sig til hlés. Athygli vakti þó þegar hún sagðist virða „báðar hliðar vísindanna“ um loftslagsbreytingar þrátt fyrir samhljóða álit vísindamanna sé að menn valdi þeim.

Í yfirheyrslum í þinginu vegna tilnefningar hennar viðurkenndi Craft þó að menn ættu þátt í loftslagsbreytingum og að hún tæki þær alvarlega. Þá hefur hún vikið frá skoðunum Trump forseta í málefnum Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×