Innlent

Tókst að bjarga um helmingi þeirra hvala sem hægt var að bjarga

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum í gærkvöldi.
Frá aðgerðum í gærkvöldi. Vísir/Sunna Sæmundsdóttir
Björgunarsveitarmönnum tókst að bjarga um helmingi þeirra hvala sem strönduðu í fjörunni við Útskálakirkju í Garði í gærkvöldi. Um fimmtíu hvalir strönduðu þar í gærkvöldi og tókst að losa nokkra strax í gærkvöldi en björgunarsveitarmenn voru hjá þeim hvölum sem sátu fastir í nótt á meðan beðið var eftir flóði í morgunsárið. 

Það byrjaði að flæða að um klukkan sex í morgun og var háflóð rétt fyrir klukkan átta í morgun. Þegar Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, heyrði í viðbragðsaðilum á vettvangi í morgun hafði tekist að bjarga um helmingi þeirra hvala sem sátu fastir. Aðstoða þurfti einhverja til að ná áttum þegar tekist hafði að losa þá. 

Þeir sem enn sitja fastir munu vafalaust vera það þangað til byrjar að fjara út og verður staðan þá nokkuð endanleg fyrir þá að sögn Davíðs.

Óttast var að margir hvalirnir sem sátu fastir myndu ekki lifa nóttina af en björgunarsveitarmenn lögðu sig fram við að halda þeim rökum með blautum teppum og tuskum ásamt því að hella vatni yfir þá úr fötum. 

Björgunarsveitarmenn frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu stóðu vaktina í nótt en um sex leytið voru nokkrir hópar til viðbótar kallaðir út til að hjálpa til við að ýta hvölunum út. Staðan rétt fyrir klukkan átta í morgun var því sú að búið var að koma öllum þeim hvölum sem hægt var að bjarga á sund. 

Er stefnt að því að björgunarsveitarmenn á vettvangi fari að ganga frá á vettvangi og halda til síns heima. 

„Þetta hefur gengið vel þó þetta sé alveg hörmulegt að horfa upp á hvalina sem voru þarna,“ segir Davíð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×