Viðskipti innlent

Launakröfur WOW starfsmanna á fjórða milljarð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fyrrverandi starfsmenn WOW air hafa gert launakröfur í þrotabú flugfélagsins fyrir á fjórða milljarð króna.  Kröfulýsingafrestur rennur út á miðnætti en ljóst er að heildarupphæð krafna í þrotabúið mun hlaupa á tugum milljarða króna.

Frestur til að lýsa kröfu í þrotabú WOW air var alls fjórir mánuðir en meginreglan er að hann sé helmingi styttri. Var það meðal annars vegna þess flugfélagið var í umtalsverðri starfsemi á erlendri grundu. Kröfulýsingafresturinn rennur svo út á miðnætti, aðfaranótt 4. ágúst.

Þúsundir krafna voru gerðar í þrotabúið en þeirra á meðal eru forgangskröfur frá næstum 900 starfmönnum WOW air, sem telja sig eiga inni ógreidd laun og uppsagnarfrest, auk ógreidds orlofs og lífeyrissjóðsiðgjalda.

Fréttastofa setti sig í samband við fjögur stærstu stéttarfélög starfsmanna WOW sem öll gerðu kröfur í búið fyrir hönd sinna félagsmanna. Flugfreyjufélag Íslands gerði flestar launakröfur en íslenska flugmannafélagið gerði hæstu kröfur. Samanlagt gera þetta um 870 forgangskröfur upp á rúmlega 3,5 milljarða króna.

Þá eru ótaldar aðrar kröfur í búið en þrotabúum ber fyrst að greiða skiptakostnað, búskröfur, þá veðkröfur og forgangskröfur eins og laun. Þar á eftir koma almennar kröfur, en ljóst er að þær munu hlaupa á tugum milljarða króna hið minnsta. Þannig hafa skuldabréfaeigendur lýst 10 milljarða kröfu og þá lagði Umhverfisstofnun næstum 3,8 milljarða króna stjórnvaldssekt á búið í júlíbyrjun fyrir að standa ekki skil á losunarheimildum. 

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að stofnunin sjái fram á mikið álag í haust við að yfirfara launakröfur í þrotabúið. Séu þær samþykktar greiðir Ábyrgðasjóður launa starfsmönnum og þá eignast sjóðurinn kröfu á þrotabúið á móti. 

Skiptastjórar þrotabúsins báðust undan viðtali í dag en annar þeirra, Þorsteinn Einarsson, sagði í samtali við fréttastofu að mikil vinna væri fram undan. Þúsundir krafna hafi borist í búið og allt kapp lagt á að undirbúa skiptafund, sem fram fer þann 16. ágúst næstkomandi á Hilton hóteli í Reykjavík.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×