Erlent

Maðurinn sem sendi andstæðingum Trump sprengjur dæmdur í 20 ára fangelsi

Andri Eysteinsson skrifar
Sayoc hafði skreytt sendiferðabíl sinn með pólitískum skilaboðum.
Sayoc hafði skreytt sendiferðabíl sinn með pólitískum skilaboðum. Vísir/AP
Cesar Sayoc, bandaríski maðurinn sem játaði í mars að hafa sent andstæðingum Bandaríkjaforseta, Donald Trump, rörasprengjur í pósti, hefur verið dæmdur í tuttugu ára fangelsi. CNBC greinir frá.

Á meðal þeirra sem Sayoc sendi sprengjur voru Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, auðkýfingurinn George Soros, sem stutt hefur við Demókrataflokkinn, og Hillary Clinton mótframbjóðandi Trump í forsetakosningunum 2016.

Pakkana sendi maðurinn í aðdraganda þingkosninga í Bandaríkjunum í október síðastliðnum. Sendingarnar voru allar stöðvaðar áður en þær komust í hendur þeirra sem þær voru stílaðar á og engin þeirra sprakk. Hann var handtekinn eftir fjögurra daga leit yfirvalda.

Sayoc hafði áður komist í kast við lögin en hann var handtekinn árið 2002 í Flórída vegna sprengjuhótunar. Þá hafði hann einnig verið handtekinn í tvígang fyrir þjófnað.

Allt í allt hafði Sayoc áætlað að senda sprengjur á allt að 100 andstæðinga Trump, þar á meðal fyrrverandi varaforsetann Joe Biden, ráðherrann fyrrverandi Eric Holder auk forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins þau Kamölu Harris og Cory Booker sem bæði eru öldungadeildarþingmenn.


Tengdar fréttir

Trump þvertekur fyrir að hann beri ábyrgð

Hann bar sprengjusendingarnar saman við skotárás stuðningsmanns Bernie Sanders á Repúblikana þar sem þeir voru að æfa sig fyrir hafnarboltaleik í fyrra.

Hinn grunaði á langan sakaferil að baki

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa opinberað nafn mannsins sem grunaður er um að hafa sent sprengjur víða um Bandaríkin á undanförnum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×