Innlent

Veita engar upplýsingar um smyglið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mennirnir, Þjóðveri og Rúmeni, voru stöðvaðir af tollvörðum þegar ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði á fimmtudag.
Mennirnir, Þjóðveri og Rúmeni, voru stöðvaðir af tollvörðum þegar ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði á fimmtudag. Vísir/vilhelm
Rannsókn á máli tveggja erlendra karlmanna, sem á laugardag voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald fyrir stórfellt fíkniefnasmygl með Norrænu, er enn á viðkvæmu stigi. Engar frekari upplýsingar fást um málið hjá lögreglu á Austurlandi að svo stöddu.

Mennirnir, Þjóðveri og Rúmeni, voru stöðvaðir af tollvörðum þegar ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði á fimmtudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu reyndu mennirnir að smygla rúmum fjörutíu kílóum af amfetamíni og kókaíni til landsins.

Sömu heimildir herma að efnin hafi fundist í fólksbíl í sérinnréttuðum hólfum og það hafi verið fíkniefnahundur sem hafi komið tollvörðum á slóðina. Til þess að komast að efnunum þurfti að flytja bílinn til Reykjavíkur og taka hann í sundur.

Gísli Auðbergsson, lögmaður annars mannsins, segir í samtali við Vísi að hann hafi ákveðið að kæra ekki gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum að kröfu lögreglustjóra á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Ekki náðist í Hilmar Gunnlaugsson, lögmanns hins mannsins, við vinnslu þessarar fréttar.

Um er að ræða eitt mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á hér á landi. Mesta magn af sterkum fíkniefnum sem lagt hefur verið hald á var í Papeyjarmálinu svokallaða fyrir rúmum tíu árum. Í því máli hlutu sex menn dóm fyrir að smygla 55 kílóum af amfetamíni og 9.400 e-töflum til landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×