Erlent

Sjötíu handteknir í alþjóðlegri aðgerð gegn barnamansali

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íslenska lögreglan tók þátt í aðgerðunum.
Íslenska lögreglan tók þátt í aðgerðunum. Vísir/vilhelm
Lögregla á Íslandi tók þátt í samevrópskum aðgerðum Europol gegn mansali á börnum í júní síðastliðnum. Sjötíu voru handteknir í aðgerðunum, sem lögregla í Bretlandi fór fyrir. Enginn var þó handtekinn á Íslandi en hlutur íslensku lögreglunnar fólst aðallega í auknu eftirliti.

Í tilkynningu frá Europol segir að sextán lönd Evrópusambandsins, auk Íslands og Sviss, hafi staðið að handtökunum. Aðgerðirnar beindust gegn mansali á börnum, sem lýtur bæði að kynlífs- og vinnuþrælkun.

Lögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðunum ræddu við yfir 127 þúsund einstaklinga, skoðuðu yfir 63 þúsund farartæki og heimsóttu á annað þúsund staði, þar á meðal hafnir, flugvelli og landamærahlið, við rannsóknina.

Alls 34 voru handteknir vegna gruns um mansal og 36 handteknir til viðbótar fyrir aðra glæpi á borð við rán, dreifingu á barnaklámi og að stuðla að ólöglegum fólksflutningum milli landa. Þá bar lögregla kennsl á 206 ætluð fórnarlömb, þar af voru 53 undir lögaldri. 31 mansalsmál er nú til skoðunar í þátttökulöndunum eftir að ráðist var í aðgerðirnar.

Auk Íslands tóku eftirfarandi lönd þátt í umræddum aðgerðum: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Króatía, Þýskaland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Holland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland. Lögregluyfirvöld í hinu síðastnefnda leiddu aðgerðina, eins og áður sagði.

Ekki er frekar greint frá aðkomu lögreglu í hverju landi fyrir sig í tilkynningu Europol og þá liggur ekki fyrir hvort einhverjir hinna grunuðu hafi verið handteknir á Íslandi.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×