Viðskipti innlent

Icelandair fær harða samkeppni frá American Airlines í Fíladelfíu

Birgir Olgeirsson skrifar
Bandaríska flugfélagið American Airlines mun bjóða upp á áætlunarferðir á milli Fíladelfíu í Bandaríkjunum og Keflavíkur á næsta ári. Mun flugfélagið bjóða upp á ferðir á milli 4. júní og 24. október.

Mun American Airlines notast við Boeing 757-200 farþegaþotu í áætlunarferðum sínum til Íslands.

Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að American Airlines hafi ákveðið að gera út í Fíladelfíu því borgin sé orðin þekkt sem ein af bestu leiðunum til að komast yfir Atlantshafið.

Borgarstjóri Fíladelfíu, Jim Kennedy, sagði borgaryfirvöld stolt af því að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu flugfélagsins í borginni.

Greint er frá því á vef Túrista að sú óvenjulega staða hafi komið upp í fyrra að bæði íslensku flugfélögin, WOW air og Icelandair, ákváðu að hefja áætlunarferðir frá Dallas í Bandaríkjunum til Íslands. Á sama tíma ákvað American Airlines að gera slíkt hið sama. Hvorki WOW air né Icelandair réðu við þá samkeppni og tilkynntu að ekki yrði áframhald á áætlunarferðum þeirra til Íslands frá Dallas.

American Airlines hélt hins vegar sínu striki en greindi Túrista frá því að ákveðið hafi verið að leggja Dallas-flugið niður og hefja ferðir á milli Íslands og Fíladelfíu. Túristi segir þessa ákvörðun American Airlines gera það að verkum að nú fái Icelandair samkeppni í flugi frá Fíladelfíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×