Erlent

Íranir segja viðskiptaþvinganir valda lyfjaskorti

Kjartan Kjartansson skrifar
Apótekari ræðir við viðskiptavin í miðborg Teheran.
Apótekari ræðir við viðskiptavin í miðborg Teheran. AP/Ebrahim Noroozi
Viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna valda nú skorti og dýrtíð á lyfjum í Íran. Lyf og aðrar mannúðarvörur eiga að vera undanþegnar þvingununum en þær hafa knésett efnahag landsins og fælt erlenda banka og fyrirtæki frá því að eiga í viðskiptum þar.

Íranski gjaldmiðillinn, riyalinn, hefur hrunið um 70% gagnvart Bandaríkjadollar frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran í fyrra og ákvað að leggja viðskiptaþvinganir aftur á.

Vegna þessa hefur verð innfluttra lyfja rokið upp. Jafnvel lyf sem eru framleidd innanlands eru of dýr fyrir marga Írani, að sögn AP-fréttastofunnar. Dýrtíð er einnig á nauðsynjum og neytendavörum í landinu.

Saeed Namaki, heilbrigðisráðherra Írans, segir fullyrðingar Bandaríkjastjórnar um að viðskiptaþvinganirnar nái ekki til lyfja séu „stór og augljós lygi“. Refsiaðgerðirnar hafi komið niður á Írönum af öllum stéttum.

Fjármálastofnanir veigra sér þannig við því að eiga í viðskiptum við Íran, jafnvel þeim sem eru utan þvinganinna, af ótta við reiði Bandaríkjastjórnar. Því geta Íranir ekki flutt fjármuni á milli landa eða tekið við aðstoð erlendis frá.

Taha Shakouri er átta ára gamall og þjáist af krabbameini í lifur. Krabbameinslyf eru að klárast á sjúkrahúsinu í Teheran þar sem hann er til meðferðar.AP/Ebrahim Noroozi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×