Erlent

Kjötsali úr hrossakjötshneykslinu handtekinn á Spáni

Kjartan Kjartansson skrifar
Hrossakjöt greindist ekki síst í frosnum unnum kjötvörum eins og lasagna.
Hrossakjöt greindist ekki síst í frosnum unnum kjötvörum eins og lasagna. Vísir/Getty
Spænska lögreglan handtók í dag hollenskan kjötsala sem hlaut dóm í Frakklandi vegna aðildar hans að hrossakjötshneykslinu sem skók Evrópu árið 2013. Frönsk yfirvöld óskuðu eftir því að hann yrði handtekinn vegna svikanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Uppi varð fótur og fit í Evrópu fyrir sex árum þegar í ljós kom að hrossakjöt sem ekki var ætlað til manneldis hefði verið notað í unnar kjötvörur og hamborgara. Óprúttnir aðilar höfðu þá selt hrossakjötið sem nautakjöt.

Maðurinn sem var handtekinn á Spáni átti einnig aðild að öðrum meintum svikum þar í landi og er sakaður um að hafa selt hrossakjöt þar sem var ekki ætlað til manneldis, að sögn lögreglu.

Nokkrir sölumenn og milliliðir voru sakfelldir vegna aðildar sinnar að hrossakjötshneykslinu í Frakklandi í apríl. Þeir voru ákærðir fyrir að svindla á viðskiptavinum og neytendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×