Erlent

Þúsundir krefjast frjálsra kosninga í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi í Moskvu heldur á kröfuspjaldi þar sem segir að hann eigi rétt á að velja.
Mótmælandi í Moskvu heldur á kröfuspjaldi þar sem segir að hann eigi rétt á að velja. Vísir/EPA
Áætlað er að rúmlega tuttugu þúsund mótmælendur hafi komið saman í miðborg Moskvu í dag og krafist frjálsra kosninga í Rússlandi. Stjórnarandstæðingar saka stjórnvöld um að hafa ranglega lýst undirskriftarlista fjölda frambjóðenda fyrir borgarstjórnarkosningar í haust ógilda.

Á meðal krafna mótmælanna í Moskvu er að frambjóðendurnir fái að skrá framboð sín fyrir kosningarnar í september. Alexei Navalní, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er á meðal mótmælendanna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Honum var meina að bjóða sig fram gegn Vladímír Pútín forseta í fyrra.

Starfsmenn kjörstjórnar bönnuðu þrjátíu frambjóðendum, flestum þeirra stjórnarandstæðingum, að bjóða sig fram til borgarstjórnar á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki safnað þeim fimm þúsund undirskriftum sem krafist var, að sögn Reuters.

Frambjóðendurnir segjast hafa skilað undirskriftarlistunum en þeir séu útilokaðir frá kosningum vegna þess að þeir ætluðu að bjóða sig fram gegn sitjandi fulltrúum sem eru hliðhollir Pútín.

Handtökur eru tíðar á mótmælum sem þessum í Rússlandi þar sem yfirvöld synja skipuleggjendum þeirra oft um leyfi. Leyfi var veitt fyrir mótmælunum í dag og hefur engum sögum farið af handtökum í tengslum við þau. Um tuttugu og fimm mótmælendur voru handteknir í Moskvu í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Hundruð mótmælenda handtekin í Moskvu

Mótmælendur kröfðust þess að einhver yrði dreginn til ábyrgðar vegna handtöku rannsóknarblaðamanns sem lögreglan virðist hafa komið sök á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×