Erlent

Níu særðir í skógareldum í Portúgal

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skógareldar á Spáni árið 2012. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Skógareldar á Spáni árið 2012. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP
Skógareldar brutust út á þremur stöðum í Castelo Branco héraðinu í Portúgal í gær. Í kring um þúsund slökkviliðsmenn berjast nú við það að reyna að slökkva þá en níu manns hafa slasast vegna þeirra.

Castelo Branco er um 200 km norðaustan af Lissabon, höfuðborg Portúgal.

Einn þeirra sem særðist hefur verið fluttur á sjúkrahús í Lissabon en hann var alvarlega slasaður. Hann er sá eini þeirra særðu sem er almennur borgari en hinir eru allir slökkviliðsmenn.

Lokað hefur verið umferð vegna eldanna og hefur eitt þorp verið rýmt.

Í gær var reynt að slökkva eldana úr lofti en það tókst ekki og heldur slökkvistarfið áfram í dag. Enn er notast við flugvélar og eru hundruð slökkviliðsbíla á svæðinu.

Herinn hefur einnig verið kallaður út til að aðstoða slökkvilið við að fá greiðari aðgang að eldinum.

Einn íbúanna á svæðinu sagði að eldarnir hafi verið ágengir og að íbúarnir hafi þurft að reyna að slökkva eldana sjálfir. Ekki hafi verið nógu margir slökkviliðsmenn.

Þetta eru fyrstu stóru skógareldarnir í Portúgal í ár en fyrir tveimur árum dóu 106 manns og voru það mannskæðustu skógareldar þar í landi í manna minnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×