Skoðun

Fyrr og síðar

Einar Benediktsson skrifar
Þeirri vegsemd fylgir ábyrgð að eiga sæti í samstarfinu á norrænum vettvangi, EFTA/EES, NATO, Sameinuðu þjóðunum o.s.frv. með rétt til afstöðu í víðtækasta skilningi. Nýlega hafa stjórnvöld hafið virka þátttöku í mannréttindamálum á vettvangi S.Þj., sem er til sóma. Svo sem er um aðrar smáþjóðir finna Íslendingar samstöðu með vina- og bandalagsþjóðum. Norðurlöndin standa saman að framboði til Öryggisráðsins og þar er kominn tími til að sjáist til Íslands.

Á árunum 2011-12 var brugðist við stórtækum fyrirætlunum Huangs Nubo um jarðakaup í Þingeyjarsýslu, sem telja mátti að tengdust risahöfn í Þistilfirði á vegum ókunnra aðila. Þeirri vá var þó bægt frá í bili með reglugerð innanríkisráðherra, sem gerði útlendingum óheimilt að eignast hér fasteignir nema með fastri búsetu. Einmitt þetta tryggðu Danir sér með undanþágu í aðildarsamningi sínum að ESB. Engu að síður var reglugerðin felld úr gildi. Nú þarf að endurvekja þessa bráðnauðsynlegu – vital interest – ráðstöfun enda hefur þessi danska löggjöf beint fordæmisgildi fyrir okkur þegar um var að ræða ekki síður ríkar ástæður en sumarbústaðaásókn nágranna Dana á Jótlandi. Stórfelld jarðakaup breska billjónerans Jims Radcliffe vegna laxveiðiréttinda á Norðausturlandi vekja furðu og ugg fólks. Brask með landgæði hefur greinilega staðið um árabil ef 60 jarðir eru komnar í eigu erlendra fjárfesta. Forsætisráðherra hefur boðað birtingu stefnumörkunar á þessu sviði í haust en er ekki tilefni til bráðabirgðaráðstafana?

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur öll áhersla verið lögð á framkvæmd EES-samningsins fremur en fulla aðild að Evrópusambandinu. Samningurinn tryggir frjálsan aðgang að mikilvægasta markaðssvæði okkar og er árangur langrar baráttu um viðskiptafrelsi samfara óskoruðum yfirráðum varðandi fiskimiðin. Komið hefur fram hávær andstaða gegn innleiðingu þriðja orkupakkans með fáránlegum málatilbúningi, sem stofnar sjálfri þátttökunni í EES í hættu. Þetta skal þó kveðið niður á sérstökum, stuttum fundi Alþingis í ágústlok.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×