Viðskipti innlent

Boða nauðungarsölu á eignum Björns Inga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. Fréttablaðið/Valli
Sýslumaðurinn á Vesturlandi, Ríkisskattstjóri, Hvalfjarðarsveit og Vátryggingafélag Íslands hafa farið fram á að fjórar eignir fjölmiðlamannsins Björns Inga Hrafnssonar í Hvalfjarðarsveit verði seldar nauðungarsölu.

Kröfur á eignirnar fjórar, Másstaði 2 til 5, nema alls um 40 milljónum króna að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar segir jafnframt að sýslumaðurinn á Vesturlandi, sem hefur nauðungarsölur á sinni könnu, hafi boðað að beiðnir um nauðungarsölurnar verði teknar fyrir þann 22. ágúst næstkomandi, hafi þær ekki áður verið felldar niður.

Í útlistun Lögbirtingablaðsins, sem VB greindi fyrst frá, má lesa að kröfur á Másstaði 2 nema alls 10.813.290 krónum, á Másstöðum 3 hvílir 9.597.740 króna krafa, Másstaðir 4 bera 9.651.467 króna kröfur og á Másstöðum 5 liggja 9.725.735 krónur. Alls gera þetta kröfur upp á 39.788.232 krónur.

Björn Ingi rekur nú vefmiðilinn Viljann en hafði áður verið forsvarsmaður Pressusamstæðunnar sem rak meðal annars DV og Pressuna. Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í desember árið 2017. 315 milljón króna kröfum var lýst í þrotabú Pressunnar, en Björn Ingi hætti stjórnarformennsku í félaginu árið 2017. Þá var veitingastaðnum Argentínu steikhúsi, sem var í eigu Björns Inga, lokað í apríl í fyrra eftir árangurslaust fjárnám.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×