Fótbolti

Stjörnumenn æfðu á heimavelli Espanyol | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnumenn voru eina íslenska liðið sem komst áfram í Evrópukeppni í ár.
Stjörnumenn voru eina íslenska liðið sem komst áfram í Evrópukeppni í ár. vísir/bára
Stjarnan mætir Espanyol á RCDE-vellinum í Barcelona annað kvöld. Þetta er fyrri leikur liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Stjörnumenn æfðu á RCDE-vellinum í dag. Espanyol bauð gestina sína velkoma á heimavöll sinn og birti myndband af æfingu Garðbæinga á Twitter. Þar má Stjörnumenn í upphitun og í reitabolta þar sem aðstoðarþjálfarinn Veigar Páll Gunnarsson sýndi gamla takta.



Stjarnan sló Levadia Tallin út á dramatískan hátt í 1. umferð forkeppninnar. Einvígið fór 4-4 en Stjörnumenn fóru áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Brynjar Gauti Guðjónsson skoraði markið sem tryggði Stjörnunni farseðilinn í 2. umferðina í uppbótartíma í seinni leiknum í Tallin.

Espanyol endaði í 7. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fyrsta sinn frá tímabilinu 2006-07.

Þá komst Espanyol alla leið í úrslit UEFA-bikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Sevilla í vítaspyrnukeppni. Knattspyrnustjóri Espanyol á þeim tíma var Ernesto Velvarde sem stýrir grönnunum í Barcelona í dag.

Leikur Espanyol og Stjörnunnar hefst klukkan 19:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Seinni leikurinn fer fram á Samsung-vellinum fimmtudaginn 1. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×