Erlent

Segir af sér í kjölfar RickyLeaks-hneykslisins

Gunnar Reynir Valþórsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ricardo Rosselló, ríkisstjóri Púertó Ríkó.
Ricardo Rosselló, ríkisstjóri Púertó Ríkó. Vísir/getty
Ricardo Rosselló ríkisstjóri Púertó Ríkó tilkynnti það í nótt að hann muni segja af sér í byrjun næsta mánaðar í kjölfar mikilla mótmæla í landinu. Mótmælin stafa af lekamáli sem kallað hefur verið RickyLeaks, en miklu magni textaskilaboða áhrifamanna í landinu var lekið til fjölmiðla. Wanda Vazquez dómsmálaráðherra mun taka við embætti ríkisstjóra af Rosselló.

Í skilaboðunum fara Rosselló og háttsettir félagar hans í ríkisstjórninni afar háðuglegum og móðgandi orðum um menn og málefni. Þeir hafa m.a. í frammi kvenfjandsamlegt tal og hæðast að fötluðum, hinsegin fólki, fólki í ofþyngd og fórnarlömbum fellibylsins Maríu.

Rosselló, sem er fertugur sonur fyrrverandi ríkisstjóra, verður þar með fyrsti ríkisstjóri Púertó Ríkó sem segir af sér. Hann hafði áður viðurkennt að hafa gert mistök en kvaðst ekki vilja taka pokann sinn heldur freist þess að ávinna sér traust eyjaskeggja á ný.

Púertó Ríkó er eyja í Karíbahafi sem á í nánu sambandi við Bandaríkin og eru eyjaskeggjar bandarískir ríkisborgarar. Þeir mega þó ekki taka þátt í kosningum þar í landi heldur hafa eyjaskeggjar áheyrnarfulltrúa í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×