Erlent

Trump heldur áfram árásum á svarta leiðtoga

Kjartan Kjartansson skrifar
Reiði Trump forseta virðist beinast að Sharpton vegna þess að klerkurinn heimsækir Baltimore sem forsetinn segir morandi í rottum og nagdýrum.
Reiði Trump forseta virðist beinast að Sharpton vegna þess að klerkurinn heimsækir Baltimore sem forsetinn segir morandi í rottum og nagdýrum. Vísir/EPA
Bandaríski klerkurinn og mannréttindafrömuðurinn Al Sharpton er nýjasti svarti leiðtoginn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti ákveður að beina spjótum sínum að. Í röð tísta kallar forsetinn Sharpton „svikahrapp“ og „vandræðagemsa“. Áður hefur forsetinn tíst á rasískan hátt um þeldökkar þingkonur og um kjördæmi svarts þingmanns.

Tilefni tísta Trump um Sharpton í morgun virðist vera heimsókn klerksins til Baltimore. Trump hefur um helgina ausið svívirðingum yfir Elijah Cummings, þingmann demókrata frá borginni, sem stýrir rannsóknum eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar á forsetanum og ríkisstjórn hans. Í þeim kallaði Trump kjördæmi Cummings meðal annars „viðbjóðslega hörmung sem er morandi í rottum og nagdýrum“ þar sem „engin manneskja vildi búa“. Meirihluti íbúa kjördæmisins eru blökkumenn.

„Al er svikahrappur, vandræðagemsi sem er alltaf að leita að feng. Bara að gera það sem hann gerir,“ tísti Trump og deildi tísti Sharpton um að hann væri á leiðinni til Baltimore.

„Hann hatar hvíta og löggur!“ tísti Trump ennfremur. Fullyrti hann að Sharpton hefði oft leitað til sín um greiða og beðið hann afsökunar í kosningabaráttunni árið 2016 um hvernig hann talaði um forsetaframbjóðandann. Sannleiksgildi þeirra fullyrðinga liggur ekki fyrir en Trump hefur fullyrt sambærilega hluti um aðra menn sem ekki hefur reynst innistæða fyrir.

Sharpton tók gagnrýni forsetans ekki þegjandi og birti mynd af þeim Trump og Jesse Jackson, öðrum svörtum mannréttindafrömuði, frá árinu 2006 þar sem Sharpton segir Trump hafa lofað þá Jackson fyrir störf þeirra.

„Trump segir að ég sé vandræðagemsi og svikahrappur. Ég bý til vandamál fyrir fordómaseggi. Ef hann héldi virkilega að ég væri svikahrappur myndi hann vilja mig í ríkisstjórnina hans,“ tísti Sharpton.

Ræðst áfram á svarta leiðtoga eftir rasísk tíst um þingkonur

Bandaríkjaforseti hélt jafnframt áfram árásum sínum á Cummings á Twitter í morgun þrátt fyrir að hafa sætt gagnrýni fyrir orðbragð sitt um hann og kjördæmi hans um helgina. Trump brást við gagnrýninni með því að kalla Cummings sjálfan „rasista“.

Rasísk tíst Trump um fjórar þingkonur demókrata fyrir tveimur vikum vöktu harða gagnrýni. Þar sagði hann þeim að „fara aftur“ til landa „morandi í glæpum“ sem hann vildi meina að þær væru frá. Þrjár þingkvennanna eru fæddar í Bandaríkjunum og sú fjórða, Ilhan Omar, flúði Sómalíu sem barn og er bandarískur ríkisborgari.

Stuðningsmenn Trump tóku hann á orðinu á kosningafundi í Norður-Karólínu hálfri viku eftir tístin. Þá kyrjuðu þeir um að Trump ætti að vísa Omar úr landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×