Innlent

Vegagerðin kærir einnig ákvörðun Skipulagsstofnunar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Kjalarnesi.
Frá Kjalarnesi. Vísir/egill
Vegagerðin hefur ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Greint var frá því í gær að bæjarráð Akraness hefði falið bæjarstjóra að gera slíkt hið sama.

Vegagerðin áformar að breikka um 9 kílómetra kafla Vesturlandsvegar á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Um er að ræða breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að breikka Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og fækka vegtengingum.

Skipulagsstofnun komst þó að þeirri niðurstöðu í júní  að breikkun vegarins um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Það er hins vegar mat Vegagerðarinnar að ákvörðunin sé ekki í samræmi „fyrri fordæmi og túlkun laga um mat á umhverfisáhrifum hvað snertir matsskyldu framkvæmda þegar verið er að breikka veg úr tveggja akreina vegi í 2+1 veg,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu frá Vegagerðinni. Nauðsynlegt sé því að fá frekari umfjöllun um ákvörðunina með tilliti til fordæmisgildis gagnvart öðrum sambærilegum framkvæmdum.

„Ákvörðunin eins og hún er fram sett getur að mati Vegagerðarinnar valdið vafa um hvernig meðhöndla eigi aðrar slíkar framkvæmdir með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. Vegagerðin mun samhliða flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er þannig að framkvæmdir tefjist sem allra minnst,“ segir aukinheldur í yfirlýsingu Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×