Innlent

Hjónin sem leitað var að á Kjalvegi fundin heil á húfi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Leitaraðgerðum var stýrt úr Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.
Leitaraðgerðum var stýrt úr Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Vísir/Jóhann K.
Hjónin sem björgunarsveitir í Árnessýslu hafa leitað að í kvöld eru fundin heil á húfi í grennd við Beinhóla á Kjalvegi, þetta staðfestir Frímann Birgir Baldursson, varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi.

Þó nokkur viðbúnaður var hjá björgunarsveitum þar sem fólkið var talið illa búið til lengri dvalar á hálendinu. Tilkynning barst á tíunda tímanum í kvöld að hjónin, sem koma frá Belgíu, hefðu ekki skilað sér úr göngu frá Gíslaskála um miðjan dag en þau höfðu verið þar á ferð ásamt tveimur sonum sínum. Þau eru á fimmtugsaldri.

Þegar ekkert hafði heyrst frá fólkinu um klukkan fimm fóru samferðamenn þeirra að hafa áhyggjur og óskuðu aðstoðar.

Leitaraðgerðum var stýrt úr Björgunarmiðstöðinni á Selfossi og sagði Frímann Birgir fyrr í kvöld, að svæðið sem leitað var á, hafi verið erfitt yfirferðar en að farið væri um ákveðnar hestagötur á fjórhjólum og voru vísbendingar um hvar fólkið væri en það var í símasambandi við Neyðarlínuna mestan allan tímann. Þá var veður ekki með besta móti. Lágskýjað, hiti undir tíu stigum og væta.

Björgunarsveitir notuðust við hljóð- og ljósmerki, það er bláu ljósin á björgunartækjum, til þess að fólkið ætti auðveldara með sjá farartækin á ferð. Það bar árangur og fundust þau skömmu fyrir klukkan eitt.

Frímann Birgir sagði í samtali við fréttastofu að hjónin hafi verið orðin nokkuð skelkuð en að öðru leiti vel á sig komin. Hann sagði að björgunarsveitir myndu aðstoða þau við að komast aftur í Gíslaskála, þar sem þau gista.


Tengdar fréttir

Leita týndra hjóna á Kjalvegi

Á tíunda tímanum í kvöld voru allar björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út vegna tveggja týndra ferðamanna á Kjalvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×