Viðskipti innlent

ON átti ekki í viðskiptum við Hlöðu á meðan eigandinn starfaði hjá félaginu

Ari Brynjólfsson skrifar
ON segir tæknilegt viðhald á hleðslustöðvum krefjast mikillar sérþekkingar.
ON segir tæknilegt viðhald á hleðslustöðvum krefjast mikillar sérþekkingar. Fréttablaðið/Valli
Orka náttúrunnar segist ekki hafa átt í neinum viðskiptum við Hleðslu ehf. eftir að framkvæmdastjóri og einn eigandi fyrirtækisins hóf störf hjá ON.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku var Ólafur Davíð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hlöðu, ráðinn sem ráðgjafi til ON.

Í bréfi sem ON sendi Fréttablaðinu segir að hann hafi verið ráðinn með stuttum fyrirvara eftir að tæknistjóri þurfti að fara frá tímabundið af persónulegum ástæðum.

„Við þessu þurfti að bregðast hratt og finna einstakling með nauðsynlega þekkingu og réttindi til að tryggja rekstur og halda uppi þjónustu við viðskiptavini,“ segir í bréfinu.

„Með mjög stuttum fyrirvara var fenginn ráðgjafi, sem jafnframt starfar hjá og er einn eigenda Hleðslu ehf., með framúrskarandi tæknilega þekkingu á hlöðum í tímabundið hlutastarf.“

Segir einnig að Ólafur Davíð hafi verið ráðinn sem ráðgjafi í tímabundið hlutastarf til þess að sinna viðhaldi og rekstri rafbílahleðslunets Orku náttúrunnar.

ON hefur alls keypt 29 hleðslustöðvar af Hlöðu. Í fyrra pantaði ON sex hraðhleðslustöðvar og 22 hleðslustöðvar af fyrirtækinu. Í febrúar síðastliðnum pantaði ON eina hleðslustöð af Hlöðu.

Líkt og Fréttablaðið sagði frá hafnaði Ólafur Davíð því að hafa beitt sér fyrir fyrirtækið í störfum sínum fyrir ON. Sama kemur fram í bréfinu.

„Á þeim tíma sem hann hefur starfað fyrir ON sem ráðgjafi hafa önnur viðskipti við fyrirtækið ekki átt sér stað,“ segir í bréfi ON.




Tengdar fréttir

Eigandi Hlöðu ráðinn sem ráðgjafi hjá ON

Orka náttúrunnar réð framkvæmdastjóra og eiganda fyrirtækis sem selur hleðslustöðvar sem ráðgjafa og tæknistjóra hleðslustöðva. Ákvörðun var tekin af ON segir framkvæmdastjórinn. Hann hafi hins vegar aðeins sinnt viðhaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×