Viðskipti innlent

Helgi kaupir í Stoðum fyrir um tvö hundruð milljónir króna

Hörður Ægisson skrifar
Helgi var á meðal þeirra sem keyptu hlut Arion í Stoðum.
Helgi var á meðal þeirra sem keyptu hlut Arion í Stoðum. Fréttablaðið/GVA
Helgi Magnússon, fjárfestir og stjórnarformaður Bláa lónsins, keypti í fjárfestingarfélaginu Stoðum fyrir jafnvirði um 200 milljónir króna undir lok síðasta mánaðar. Þannig nemur eignarhlutur Hofgarða, félags í eigu Helga, um 0,94 prósentum eftir kaupin miðað við útstandandi hlutafé Stoða, samkvæmt nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins og Markaðurinn hefur undir höndum.

Helgi var í hópi nítján fjárfesta og sjóða sem keyptu um nítján prósenta hlut Arion banka í fjárfestingarfélaginu föstudaginn 28. júní síðastliðinn en tveir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags bankans, fóru fyrir fjárfestahópnum og keyptu samanlagt um átta prósenta hlut. Eignarhlutur Arion banka í Stoðum var seldur fyrir samtals um fjóra milljarða króna.

Þá fjárfestu tvö félög í eigu Ingimundar Sveinssonar arkitekts og fjölskyldu – Eldhrímnir ehf. og Fininvest ehf. – í Stoðum fyrir samanlagt um fjögur hundrað milljónir. Eignarhaldsfélagið Eldhrímnir, sem er í eigu hjónanna Ingimundsarog Sigríðar Arnbjarnardóttur ásamt börnum þeirra, á núna tæplega eins prósents hlut í Stoðum.

Eldhrímnir var á meðal stærstu hluthafa í The Icelandic Milk and Skyr Corporation, betur þekkt sem Siggi´s Skyr, sem var selt til franska mjúlkurrisans Lactalis fyrir að lágmarki 370 milljónir Bandaríkjadala í ársbyrjun 2018, jafnvirði 40 milljarða króna á þáverandi gengi. Þá keypti félagið Fininvest ehf., sem var stofnað í síðasta mánuði, sömuleiðis nærri eins prósenta hlut í Stoðum en bræðurnir Sveinn og Arnbjörn Ingimundarsynir sitja í stjórn félagsins.

Á meðal annarra fjárfesta, eins og upplýst var um í Markaðinum í síðustu viku, var Kári Guðjón Hallgrímsson, stjórnandi á skuldabréfasviði fjárfestingarbankans JP Morgan í London, en hann keypti í Stoðum fyrir um 300 milljónir og fer með um 1,3 prósenta hlut í gegnum félagið Vindhamar. Þá keypti Óttar Pálsson, stjórnarmaður í Kaupþingi og meðeigandi hjá LOGOS, fyrir um 100 milljónir í gegnum eignarhaldsfélagið Kaldakur og er hann á meðal tuttugu stærstu hluthafa Stoða með 0,47 prósenta hlut.

Aðrir sem hafa bæst á lista yfir stærstu hluthafa Stoða, og eiga hver um sig hlut í félaginu að jafnvirði um 50 milljónir króna, er meðal annars Helga Árnadóttir athafnakona, Ingimundur Ingimundarson, stór hluthafi í HB Granda, Jóhannes Bjarni Björnsson, meðeigandi hjá Landslögum, og Sigurður Gísli Pálmson, annar eigenda IKEA á Íslandi.

Helgi Magnússon, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og sat í stjórn Marels í fjórtán ár, keypti í byrjun síðasta mánaðar helmingshlut í Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, og tók hann í kjölfarið sæti í stjórn félagsins. Stoðir, sem eru á meðal stærstu hluthafa í tryggingafélaginu TM, Arion banka og Símanum, högnuðust um 1.100 milljónir á síðasta ári. Stærsti hluthafi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með um 65 prósenta hlut. Það er meðal annars í eigu félaga á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×