Erlent

Þúsundir kröfðust afsagnar ríkisstjóra eftir „Ricky-Leaks“ hneykslið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Valdamenn í Púertó Ríkó voru afhjúpaðir þegar spjallþræði var lekið út. Þeir höfðu í frammi meiðandi ummæli um minnihlutahópa.
Valdamenn í Púertó Ríkó voru afhjúpaðir þegar spjallþræði var lekið út. Þeir höfðu í frammi meiðandi ummæli um minnihlutahópa. Vísir/ap
Þúsundir eyjaskeggja fylktu liði í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó, og kröfðust þess að Ricardo Roselló, ríkisstjóri Púertó Ríkó segði af sér eftir að hann og fleiri valdamenn í efstu lögum samfélagsins urðu uppvísir að fjandsamlegum ummælum í garð minnihlutahópa þegar spjallþræði sem telur hundruð blaðsíðna var lekið um helgina.

Í fjölmiðlum ytra er talað um lekann sem „Ricky-Leaks“ en með honum voru valdamenn í innsta hring afhjúpaðir. Róselló og aðrir hátt settir aðilar í Púertó Ríkó höfðu í frammi kvenfjandsamlegt tal og hæddust að fötluðum, hinsegin fólki, fólki í ofþyngd og fórnarlömbum fellibylsins Maríu.

Lögreglan brást við mótmælunum með því að nota táragas og gúmmíkúlur.

„Ricky-Leaks“ kornið sem fyllti mælinn

Sumir hinna hátt settu sem tóku þátt í spjallinu hafa þegar sagt af sér en Roselló neitar að taka pokann sinn. Á blaðamannafundi sem fór fram á þriðjudag sagði hann að þrátt fyrir að skeytasendingarnar væru óviðeigandi væru þær ekki ólöglegar. Hann hvatti þjóðina til að horfa fram á veginn og halda áfram að starfa í þágu Púertó Ríkó.

Mótmælendur segja háttsemi ráðamanna á spjallþræðinum vera kornið sem fyllti mælinn. Undanfarin ár hafa einkennst af miklum efnahagserfiðleikum en árið 2017 var tilkynnt um sögulega endurskipulagningu á skuldum ríkisins. Um var að ræða stærsta gjaldþrot í sögu bandaríska markaðarins með bréf ríkja og sveitarfélaga en sá markaður telur 3800 milljarða Bandaríkjadala. Stjórnvöld í Púertó Ríkó brugðust við efnahagsþrengingum með umfangsmikilli einkavæðingu sem hefur bitnað meðal annars á heilsugæslu og menntakerfi.

 

Söngvarinn Ricky Martin til vinstri veifar fána Púertó Ríkó og krefst afsagnar Rosellos.Vísir/ap

Hæddust að kynhneigð Martins

Söngvarinn Ricky Martin, sem varð fyrir barðinu á hatursfullum ummælum valdamanna, var í fararbroddi í mótmælagöngunni. Í myndskeiði sem hann birti í gær sagðist hann vera reiður, pirraður og finna fyrir verk í brjósti.

„Hvernig get ég losnað undan þessum þjáningum?“ spurði söngvarinn og svaraði eigin spurningu jafnóðum. Þær hyrfu með því að ganga fylktu liði með íbúum Púertó Ríkó og krefjast réttlætis.

„Við ætlum að fá Ricardo Rosselló til að skilja að við viljum hann ekki við völd og að við erum þreytt. Íbúar Púertó Ríkó hafa þjáðst svo mikið nú þegar. Við þolum ekki meiri kaldhæðni af hálfu svokallaðra „leiðtoga“. Sem betur fer var spjallþræðinum lekið. Sem betur fer var honum lekið því hann afhjúpaði þá alla.“

Borgarstjórinn „greinilega hætt að taka lyfin sín“

Carmen Yulín Cruz, borgarstjóri San Juan, sagði mótmælin marka tímamót í sögu Púertó Ríkó. Hún er yfirlýstur andstæðingur Roselló og hyggst bjóða sig fram á móti honum í kosningunum sem fara fram á næsta ári. Í spjallþræðinum sem var lekið um helgina hæddist Rosselló að Cruz og sagði að það væri greinilegt að hún væri „hætt að taka lyfin sín“.


Tengdar fréttir

Yfir 1.400 sögð hafa látist í Púertó Ríkó

Ríkisstjórn Púertó Ríkó birti í gær skýrslu þar sem fram kom að 1.427 hafi farist vegna fellibylsins Maríu sem reið yfir eyjuna þann 20. september síðastliðinn. Sú tala er margfalt hærri en talan sem ríkisstjórnin gaf fyrst upp, 64.

Tala látinna hækkuð úr 64 í 2.975

Ríkisstjóri Púertó Ríkó hefur hækkað opinbera tölu látinna vegna fellibylsins María sem fór þar yfir fyrir rúmu hálfu ári úr 64 í 2.975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×