Íslenski boltinn

Leikmaður KR byrjaði fyrri leikinn við Molde en var í gæslunni á þeim síðari í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deildinni í sumar.
Finnur Tómas Pálmason í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deildinni í sumar. Vísir/Bára
Spútnikstjarna KR-inga í fótboltanum í sumar fann aðra leið til að hjálpa félaginu sínu í gær þegar hann gat það ekki inn á vellinum sjálfum.

Finnur Tómas Pálmason hefur slegið í gegn hjá toppliði KR í Pepsi Max deildinni í sumar en þessi átján ára strákur nýtti tækifærið sitt vel og hefur spilað mjög vel í miðri vörn Vesturbæjarliðsins.

Finnur Tómas Pálmason spilaði fyrri leikinn á móti Molde í Evrópudeildinni en hann meiddist í leiknum út í Noregi sem var fyrsti Evrópuleikurinn hans á ferlinum.

Finnur Tómas hitaði upp fyrir leikinn í gær en gat ekki spilað vegna meiðslanna.

KR-ingurinn og knattspyrnuáhugamaðurinn Sigurður Helgason vakti athygli á því að Finnur Tómas hélt áfram að hjálpa félaginu sínu þótt að hann gæti ekki hjálpað til inn á vellinum sjálfum.

Sigurður Helgason vakti athygli á starfi Finns Tómasar Pálmasonar á leiknum í gær með fésbókarfærslunni hér fyrir neðan.  

„Það eru mörg störfin á heimaleikjum! Finnur Tómas sem lék fyrri leikinn gegn Molde mættur í gæslu á seinni leikinn,“ skrifaði Sigurður.



Finnur Tómas er nýbúinn að framlengja samning sinn við KR-liðið en það má þó ekki búast við því að gæslustörf hafi verið þar á blaði. Nýi samningurinn hans er út árið 2022 eða í rúm þrjú tímabil til viðbótar.

KR-ingar spila ekki fleiri Evrópuleiki á þessu tímabili en þeir eru með sjö stiga forystu á toppi Pepsi Max deildar karla og eru komnir í undanúrslitin í Mjólkurbikarnum. KR á því góða möguleika á því að vinna tvöfalt á fyrsta tímabili Finns sem fastamanns í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×