Innlent

Horfa þarf til Hvassahraunsmöguleika

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Stækkun Keflavíkurflugvallar er í farvatninu.
Stækkun Keflavíkurflugvallar er í farvatninu. Fréttablaðið/GVA
Taka þarf mið af mögulegri uppbyggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni í mati á umhverfis­áhrifum stækkunar Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun fyrir verkefnið sem birt var á vef stofnunarinnar í gær.

Í tillögu Isavia að matsáætlun eru settir fram tveir meginvalkostir um stækkun flugvallarins í Keflavík. Samtök um betri byggð telja að bera þurfi fyrirhugaðar framkvæmdir saman við aðra valkosti um uppbyggingu á aðstöðu fyrir millilandaflug og innanlandsflug á suðvesturhorninu. Þetta kemur fram í athugasemdum samtakanna við tillögu Isavía að matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Í svörum Isavia við þessum athugasemdum kemur fram að „fyrirtækið telji það ekki vera hlutverk umhverfismats á stækkun Keflavíkurflugvallar að meta umhverfisáhrif af uppbyggingu annarra flugvalla“.

Skipulagsstofnun er ekki sammála Isavia að því leyti og bendir á að starfshópur sé starfandi á vegum stjórnvalda sem hafi það hlutverk að skoða uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. „Það liggur því fyrir að litið er á uppbyggingu flugvallar þar sem mögulegan eða raunhæfan valkost. Af þeim sökum þarf í frummatsskýrslu að gera grein fyrir stöðu mála varðandi mögulega flugvallaruppbyggingu í Hvassahrauni,“ segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun verkefnisins. Fram kemur að fjalla þurfi um fyrirhugaða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og umhverfisáhrif hennar miðað við mögulega sviðsmynd um að byggður verði flugvöllur í Hvassa­hrauni. Einnig þurfi að gera grein fyrir fyrirhugaðri áfangaskiptingu framkvæmdanna miðað við áformaða afkastagetu flugvallarins í hverjum áfanga, sem skoðist þá jafnframt sem valkostir um uppbyggingu flugvallarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×