Fótbolti

Hollensku stelpurnar leika sinn fyrsta úrslitaleik á HM á sama degi og strákarnir fyrir 45 árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Hollands máluðu bæinn appelsínugulan.
Stuðningsmenn Hollands máluðu bæinn appelsínugulan. vísir/getty
Sjöundi júlí er stór dagur í knattspyrnusögu Hollands.

Á þessum degi árið 1974 mætti Holland Vestur-Þýskalandi í fyrsta úrslitaleik sínum á HM karla. Og í dag, nákvæmlega 45 árum frá úrslitaleiknum í München 1974, mætir Holland Bandaríkjunum í fyrsta úrslitaleik sínum á HM kvenna.



Hollensku stelpurnar vonast væntanlega eftir annarri og betri útkomu en í úrslitaleiknum hjá Johan Cruyff og félögum fyrir 45 árum.

Holland komst yfir strax á 2. mínútu þegar Johan Neeskens skoraði úr vítaspyrnu. Paul Breitner jafnaði úr annarri vítaspyrnu á 25. mínútu og tveimur mínútum fyrir hálfleik skoraði Gerd Müller sigurmark Vestur-Þjóðverja sem urðu þar með heimsmeistarar í annað sinn.

Holland komst einnig í úrslit á HM karla 1978 og 2010 en tapaði í bæði skiptin, fyrir Argentínu og Spáni.

Hollendingar eru hins vegar með 100% árangur í úrslitaleikjum á EM, bæði karla og kvenna. Hollendingar urðu Evrópumeistarar karla 1988 eftir sigur á Sovétmönnum, 2-0, og Holland vann Danmörku, 4-2, í úrslitaleik EM kvenna fyrir tveimur árum.

Með sigri á Bandaríkjunum í Lyon í dag verður Holland því handhafi bæði heims- og Evrópumeistaratitilsins. Verkefnið er þó ærið gegn heimsmeisturum Bandaríkjanna sem hafa unnið ellefu leiki í röð á HM.

Leikur Hollands og Bandaríkjanna hefst klukkan 15:00 í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×