Skoðun

Ástin á yfirvigtinni

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Sumarið 2002 varð ég mamma þegar dásamleg dóttir fæddist í upphafi HM í fótbolta. Næturmjaltirnar fóru saman við leikjaplan í Japan og Suður-Kóreu og allt var eins og það átti að vera. Móðurhlutverkið breytti lífinu og hvernig ég skynjaði aðstæður (hættur alls staðar), hvernig ég svaf (svaf ekki) og sem mamma veit ég að til er ást sem er engri annarri lík. Stærsta breytingin varð þó vitaskuld á því hvernig ég pakka fyrir ferðalög.

Sem mamma finnst mér notalegt að líta yfir farþegahópinn í flugtaki og vita að ég er með lyf og hitalækkandi stíla fyrir allan hópinn. Með ferðaapótekinu mínu hef ég unnið með hugmyndafræði lækna án landamæra og er með allar stærðir plástra og sárabinda, verkjalyf og hitalækkandi, magasýrutöflur, smyrsli og kælandi krem, bómullargrisjur og sótthreinsi. Ég vil getað líknað sjúkum og gæti í sjálfu sér framkvæmt einfaldari skurðaðgerðir í flugi. Eftir að fréttir af flugdólgum tóku að berast er ég alltaf með rúllu af sterku límbandi meðferðis.

Við mæðgur flugum í vikunni með 50 kíló af fatnaði á áfangastað þar sem við klæðumst sundbol. Saumaboxið er meðferðis þar sem ég er með nál, skæri, nælur og auðvitað tvinna í helstu grunnlitum. Við erum með snyrti- og hárvörur og ýmis hreinsandi töfrakrem upp á nokkur kíló. Og ég er með flísatöngina ef erfiða hárið kemur.

Móðurhlutverkið hefur kennt mér nokkrar lexíur. Ein er að sumt er bara eins og það er. Það veitir mér til dæmis djúpstæða hugarró að vera undir öll ósköp heimsins búin á ferðalagi; vetrarstorm, óvænt boð með áskilnaði um síðkjól og sjónvarpsförðun, eða bráðaaðgerð. Að loka blýþungum ferðatöskunum vitandi að ég er reiðubúin er hluti af ferðalaginu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×