Viðskipti innlent

Incrementum með um eitt prósent í Símanum

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði Símans er 42 milljarðar króna.
Markaðsvirði Símans er 42 milljarðar króna. Vísir/hanna
Fjárfestingafélagið Incrementum, sem er stýrt af viðskiptafélögunum Ívari Guðjónssyni, Baldvini Valtýssyni og Smára Rúnari Þorvaldssyni, hefur að undanförnu staðið að fjárfestingum í Símanum og nemur markaðsvirði hlutar félagsins nú um 350 milljónum króna. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa fjarskiptafyrirtækisins í gær, sem Markaðurinn hefur séð, átti fjárfestingafélagið rúmlega 75,6 milljónir hluta í Símanum að nafnvirði, eða sem nemur 0,82 prósenta hlut.

Sá hlutur skilar Incrementum hins vegar ekki á opinberan lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Símans – félagið er 24. stærsti hluthafi félagsins – en fjárfestingafélagið Stoðir, sem er með rúmlega átta prósenta hlut, er eini einkafjárfestirinn í þeim hópi.

Incrementum, sem var stofnað fyrr á árinu og er með vel á annan milljarð króna í hlutafé, hefur einnig verið að fjárfesta í Kviku en í lok síðasta mánaðar var félagið skráð fyrir tæplega 1,1 prósents hlut í bankanum. Þá er fjárfestingafélagið í hópi stærstu hluthafa Reita með 1,4 prósenta eignarhlut í fasteignafélaginu. Hluthafahópur Reita samanstendur af fjársterkum einkafjárfestum og Kviku en eignarhlutur bankans í félaginu nemur um sjö prósentum.

Samkvæmt nýjasta lista yfir alla hluthafa Símans hefur Kvika banki næstum tvöfaldað hlut sinn í fjarskiptafélaginu frá mánaðamótum og er núna skráður fyrir 3,8 prósenta hlut. Til samanburðar var eignarhlutur Kviku, en bankinn heldur á þeim bréfum að stórum hluta fyrir viðskiptavini sína, um 2,1 prósent í byrjun júní. Talsverð viðskipti voru með bréf Símans síðasta fimmtudag þegar heildarveltan nam um 770 milljónum. - hae.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×