Erlent

Tveir böðlar ráðnir á Srí Lanka

Sylvía Hall skrifar
Aðgerðarsinnar hafa mótmælt aftökunum.
Aðgerðarsinnar hafa mótmælt aftökunum. Vísir/Getty
Yfirvöld í Srí Lanka hyggjast taka fjóra menn af lífi fyrir fíkniefnalagabrot og hafa tveir menn verið ráðnir til þess að taka mennina af lífi. Aftökurnar verða þær fyrstu frá árinu 1976.

Þetta kemur fram á vef BBC en áður hafa verið gerðar tilraunir til þess að ráða menn í starfið. Árið 2013 voru tveir ráðnir en mættu þeir aldrei til starfa og ári síðar sagði annar upp í áfalli eftir að hafa séð gálgann. Aðgerðarsinnar í landinu hafa mótmælt fyrirhuguðum aftökum.

Staðan var auglýst til umsóknar í febrúar þar sem óskað var eftir aftökumönnum með „sterka siðferðiskennd“. Yfir hundrað manns sóttu um stöðuna, þar á meðal tveir Bandaríkjamenn og tvær konur.

Mennirnir tveir sem voru ráðnir munu nú undirgangast tveggja vikna þjálfun. Mikill fjöldi fólks hefur hlotið dauðadóm fyrir brot á fíkniefnalögum í landinu en árið 2015 voru 1.116 fangar á dauðadeild.


Tengdar fréttir

Srí Lanka vill ráða tvo böðla

Ríkisstjórn Srí Lanka auglýsir nú eftir tveimur böðlum. Reuters greindi frá þessu í gær en Maithripala Sirisena forseti lýsti því yfir í síðustu viku að hann vildi taka upp dauðarefsingar í eyríkinu á ný til þess að refsa fíkniefnasmyglurum, -framleiðendum og -sölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×