Fótbolti

Tyrkir aldrei unnið á Laugardalsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi á bragðið í sigrinum á Tyrklandi á Laugardalsvellinum 2014.
Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi á bragðið í sigrinum á Tyrklandi á Laugardalsvellinum 2014. vísir/anton
Ísland og Tyrkland mætast á Laugardalsvellinum í undankeppni EM 2020 klukkan 18:45 í kvöld. Mikið hefur gengið á í aðdraganda leiksins sem er afar mikilvægur fyrir bæði lið. Tyrkir eru með níu stig á toppi H-riðils en Íslendingar eru með sex stig í 3. sætinu.

Þetta er í sjöunda sinn sem Tyrkir sækja Íslendinga heim. Í sex leikjum á Laugardalsvelli hefur Tyrkland aðeins fengið eitt stig. Ísland hefur unnið fimm leiki og einu sinni varð jafntefli. Markatalan er 14-2, Íslendingum í vil.

Tyrkir komu fyrst í heimsókn hingað til lands í undankeppni HM haustið 1981. Íslendingar unnu leikinn 2-0 með mörkum Lárusar Guðmundssonar og Atla Eðvaldssonar. Ísland vann einnig útileikinn gegn Tyrklandi, 1-3.

Liðin lentu aftur saman í riðli í undankeppni HM 1990. Fyrri leikurinn ytra fór 1-1 en Ísland vann leik liðanna á Laugardalsvellinum, 2-1. Pétur Pétursson skoraði bæði mörk Íslands.

Arnór Guðjohnsen skoraði fernu í sigri Íslands á Tyrklandi í Laugardalnum fyrir 28 árum.mynd/brynjar gauti
Sumarið 1991 skoraði Arnór Guðjohnsen fernu í 5-1 sigri á Tyrkjum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum. Sigurður Grétarsson var einnig á skotskónum í leiknum.

Ísland og Tyrkland voru saman í riðli í undankeppni EM 1996. Tyrkir unnu fyrri leikinn ytra, 5-0, en sá seinni á Laugardalsvellinum fór 0-0. Það er eina stigið sem Tyrkland hefur náð í hér á landi.

Að neðan má sjá svipmyndir frá 5-0 leiknum ytra þar sem Birkir Kristinsson fór meiddur snemma af velli. Varamarkvörðurinn Kristján Finnbogason hafði nóg að gera í markinu.

Ísland vann 3-0 sigur á Tyrklandi í undankeppni EM haustið 2014. Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk íslenska liðsins.

Tyrkir unnu seinni leikinn í Konya, 1-0, en þá voru Íslendingar búnir að tryggja sér sæti í lokakeppni EM.

Svipmyndir úr 3-0 sigrinum á Laugardalsvelli og umræðu um leikinn má sjá hér að neðan.

Íslendingar unnu svo flottan 2-0 sigur á Tyrkjum í undankeppni HM 2018 á Laugardalsvelli. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×