Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá Nova í fyrra

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova
Hagnaður Nova nam tæplega 1,2 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi fjarskiptafélagsins, og dróst saman um nítján prósent frá fyrra ári þegar hann var um 1,5 milljarðar króna.

Tekjur Nova, sem er með um þriðjungshlutdeild á íslenskum farsímamarkaði, voru tæpir 9,9 milljarðar króna í fyrra og jukust um liðlega tólf prósent frá árinu 2017 en þá námu þær 8,8 milljörðum króna.

EBITDA fjarskiptafélagsins - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - var jákvæð um 2,3 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé félagsins var 4.287 milljónir króna í lok síðasta árs og var eiginfjárhlutfallið á sama tíma 67 prósent.

Stjórn Nova leggur til að greiddur verði 750 milljóna arður til móðurfélagsins sem er í jafnri eigu eignastýringarfyrirtækisins Pt Capital annars vegar og Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og stjórnenda Nova hins vegar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×