Erlent

Bry­an Sin­ger greiðir 150 þúsund dollara vegna á­sökunar um nauðgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Bryan Singer hefur fallist á að greiða 150 þúsund dollara til þess að útkljá ásökun á hendur honum um að hafa nauðgað 17 ára pilti árið 2003. Verði greiðslan samþykkt fellur niður málsókn gegn honum vegna meintrar nauðgunar. Upphæðin nemur tæplega 19 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Það var í desember 2017 sem Cesar Sanchez-Guzman fór í mál við Singer. Sagði hann leikstjórann hafa nauðgað sér í partýi á snekkju í Seattle árið 2003. Ásökunin var sett fram skömmu eftir að Singer hafði verið rekinn sem leikstjóri Queen-myndarinnar Bohemian Rhapsody.



Singer hefur alltaf neitað því að hafa nauðgað Sanchez-Guzman og lögmaður hans hefur ítrekað í tengslum við sektargreiðsluna nú að leikstjórinn heldur enn fram sakleysi sínu.

Sanchez-Guzman var úrskurðaður gjaldþrota árið 2014 en gjaldþrotamál hans var opnað á ný í fyrra í kjölfar ásakana hans á hendur Singer.

Sagði skiptastjóri þrotabús Sanchez-Guzman að ásökunin á hendur Singer hefðu ekki verið komnar fram þegar búinu var skipt upp á sínum tíma. Allur ágóði af málsókninni ætti því með réttu að renna til þeirra sem Sanchez-Guzman gat ekki gert upp við í gjaldþrotinu.

„Ákvörðunin um að leysa málið með þessum hætti með skiptastjóranum er eingöngu viðskiptalegs eðlis, þar sem málaferlin hefðu gætu vel reynst dýrari en upphæðin sem skiptastjórinn fór fram á til að gera upp við þá sem áttu skuldir inni hjá skuldaranum þegar hann var úrskurðaður gjaldþrota,“ segir lögmaður Singer.

Leikstjórinn hefur grætt að minnsta kosti 40 milljónir dollara á verðlaunamyndinni Bohemian Rhapsody þrátt fyrir að hafa verið rekinn frá verkefninu, að því er fram kemur í frétt Guardian um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×