Innlent

Eldur kom upp við svínabú í Borgarbyggð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkvilið var kallað út frá öllum stöðvum í Borgarbyggð.
Slökkvilið var kallað út frá öllum stöðvum í Borgarbyggð. Vísir/Stöð 2
Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað út síðdegis í dag vegna elds við svínabú á Hýrumel í Borgarfirði. Mikill viðbúnaður hefur verið í sveitarfélaginu undanfarna daga vegna hættu á gróðureldum en óvissustigi almannavarna var lýst yfir í byrjun vikunnar í ljósi langvarandi þurrka á svæðinu.

Þórður Sigurðsson varaslökkviliðsstjóri segir í samtali við fréttastofu að útkallið hafi litið illa út í upphafi en betur hafi farið en á horfðist, einkum vegna þess að bakvakt hafði verið kölluð út í Borgarbyggð vegna gróðureldahættunnar og var útkallið því vel mannað.

Slökkviliðsmenn réðu fljótt niðurlögum eldsins á vettvangi en allt bendir til þess að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstöflu.

Slökkvilið Borgarbyggðar æfir í kvöld útkall vegna viðbragða við gróðureldum. Allt tiltækt slökkvilið tekur þátt í æfingunni en um fimmtíu manns verða ræstir út frá fjórum stöðvum slökkviliðsins; í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og á Bifröst. 


Tengdar fréttir

Öryggi þúsunda ógnað með ótryggum flóttaleiðum

Öryggi þúsunda er ógnað í Skorradal þar sem flóttaleiðir eru ótryggar komi þar upp gróðureldur að mati lögreglustjóra Vesturlands. Hann segir yfirvöld þurfa að grípa til aðgerða. Óvissuástandi almannavarna hefur verið lýst yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×