Viðskipti innlent

Stað­festi að Byko hafi framið al­var­leg sam­keppnis­brot en lækkaði sektina

Atli Ísleifsson skrifar
Byko þarf að greiða 325 milljónir króna í sekt.
Byko þarf að greiða 325 milljónir króna í sekt. Vísir/ernir
Landsréttur staðfesti í dag með dómi sínum að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum, en lækkaði álagða sekt í 325 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði á sínum tíma talið 65 milljónir króna sekt hæfilega en Héraðsdómur Reykjavíkur hækkaði sekt Byko í 400 milljónir.

Í tilkynningu frá Samkeppnisyfirlitinu segir að á vordögum 2015 hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólöglegu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Hafi málið snúið að verðsamráði á mikilvægum byggingavörum.

Sekt lækkuð, hækkuð og aftur lækkuð

„Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 mkr. sekt á Norvik, móðurfélag Byko,“ segir í tilkynningunni.

Norvik og Byko kærðu þá ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismáli sem mat það svo að Byko hafi tekið þátt í ólöglegu samráði en ekki brotið gegn ákvæðum EES. Nefndin mat það hins vegar að brotin hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar og var sektin lækkuð úr 650 milljónum í 65 milljónum. Héraðsdómur taldi hins vegar að ákvæði EES er varða samkeppnishamlandi samráð hafi verið brotin og hækkaði sektina í 400 milljónir króna.

„Með dómi sínum í dag tekur Landsréttur undir það með Samkeppniseftirlitinu að þegar brot Byko eru „metin heildstætt [verði] að leggja til grundvallar að um sé að ræða alvarleg brot sem beinast gegn mikilsverðum hagsmunum neytenda. Brotin voru framin af ásetningi“. Lækkun Landsréttar á þeirri sekt sem ákveðin var í héraði byggði m.a. á því að Landsréttur féllst ekki á það með Samkeppniseftirlitinu að Byko hefði einnig brotið gegn EES-samningnum,“ segir í tilkynningunni.



Átta starfsmenn dæmdir

Þar segir ennfremur að brot þessa máls tengist ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar. „Rannsókn á þætti Húsasmiðjunnar í málinu lauk í júlí 2014. Með sátt, dags. 9. júlí 2014, viðurkenndi fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólögmætu samráði við Byko.

Í samræmi við lögbundið hlutverk sitt kærði Samkeppniseftirlitið til lögreglu stjórnendur og starfsmenn Byko og gömlu Húsasmiðjunnar fyrir þátt sinn í samráðinu. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 voru átta starfsmenn fyrirtækjanna sakfelldir,“ segir í tilkynningunni.

Í dómnum er íslenska ríkið einnig dæmt til að greiða Norvik 75 milljónir króna í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×