Erlent

Settu ó­­vart „kisu­filter“ á beina út­­sendingu af blaða­manna­fundi

Sylvía Hall skrifar
Yousafzai tók sig vel út með filterinn.
Yousafzai tók sig vel út með filterinn. Skjáskot
Pakistanski stjórnmálamaðurinn Shaukat Yousafzai lenti í grátbroslegri uppákomu á föstudag þegar hann streymdi blaðamannafundi sínum. Fyrir mistök var stillt á „kisufilter“ í útsendingunni og birtist Yousafzai því fylgjendum sínum með kattareyru og veiðihár. BBC greinir frá.

Fundurinn var sendur út á Facebook og voru notendur fljótir að benda á mistökin. Yousafzai hélt þó ótrauður áfram með fundinn og vissi ekki af mistökunum.

Hann sagði stillinguna hafa verið mistök og það ætti ekki að taka þeim of alvarlega. Þá bætti hann við að hann hafi ekki verið sá eini sem fékk að njóta sín með kattareyru og veiðihár, en tveir menn sem sátu við hlið hans urðu líka fyrir hinum svokallaða kisufilter.

Myndbandinu var eytt af Facebook-síðu flokksins fljótlega eftir útsendinguna og hefur flokkurinn gefið það út að um mannleg mistök væri að ræða. Hyggst flokkurinn ætla að koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig en netverjar voru þó fljótir til að ná skjáskotum af útsendingunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×