Viðskipti innlent

Næstu stórkaup Icelandair gætu orðið í þessari þotu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus A321XLR er heiti nýju þotunnar, sem áætlað er að verði komin í þjónustu flugfélaga árið 2023.
Airbus A321XLR er heiti nýju þotunnar, sem áætlað er að verði komin í þjónustu flugfélaga árið 2023. Teikning/Airbus.
Ráðamenn Icelandair stefna að ákvörðun fyrir áramót um framtíðarskipan flugflotans sem gæti falið í sér stórfelld flugvélakaup. Ný langdræg farþegaþota, sem Airbus kynnti í gær, er meðal þeirra sem helst koma til greina sem arftaki Boeing 757-vélanna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Flugsýningin í París, sem hófst í gær, er langstærsta kaupstefna flugiðnaðarins í heiminum. Þar kynna flugvélaframleiðendur nýjustu tæki og tól og undirrita kaupsamninga við flugfélög fyrir gríðarlegar fjárhæðir. Icelandair er meðal þeirra félaga sem eiga fulltrúa á sýningunni. 

Eftir neikvæðar fréttir af flugslysum og framleiðslugalla Boeing 737 MAX-vélanna skýrðu ráðamenn Boeing frá því í dag að þeir hefðu undirritað viljayfirlýsingu um sölu á 200 slíkum vélum til British Airways samsteypunnar.

Sjá nánar hér: Móðurfélag British Airways vill 200 nýjar Boeing MAX-vélar.

Mesta athygli í gær vakti hins vegar ákvörðun Airbus um smíði nýrrar 200 sæta flugvélar með óvenju langt flugdrægi. 

„Þetta er A321XLR, dömur mínar og herrar. Þetta er flugvél sem hefur 4.700 sjómílna flugdrægi í dæmigerðri útfærslu fyrir lengra flugdrægi, sem verður tveggja farrýma útfærsla,“ sagði Christian Scherer, sölustjóri Airbus, þegar hann skýrði fréttamönnum frá ákvörðun evrópska flugvélaframleiðandans. 

Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, hefur lýst því yfir að þetta sé ein af þeim vélum sem félagið horfir helst til þegar framundan er ákvörðun um endurnýjun flugflotans. Bogi Nils fjallaði um endurskoðun flotastefnu félagsins í viðtali við Stöð 2 fyrir sex vikum. 

Sjá hér: Icelandair skoðar að skipta yfir í Airbus. 

Það er einmitt þetta langa flugdrægi vélar af millistærð sem gerir nýju Airbus-vélina hentuga fyrir leiðakerfi Icelandair, en hún á að koma á markað árið 2023. 

Sjá einnig: Nýjasta þotan frá Airbus gæti orðið framtíðarvél Icelandair. 

Ráðamenn Icelandair stefna að ákvörðun fyrir lok ársins um hvort þeir haldi sig við Boeing eða hvort stefnan verði tekin á Airbus-þotur. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Móðurfélag British Airways vill 200 nýjar Boeing MAX-vélar

Viljayfirlýsing IAG, móðurfélag breska flugfélagsins British Arways, um kaup á 200 Boeing 737 MAX flugvélum er talinn vera mikill sigur fyrir bandaríska flugvélaframleiðandann sem glímt hefur við erfiðleika vegna flugbanns 737 vélanna eftir tvö mannskæð flugslys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×